Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 14:00:46 (2043)

2002-12-04 14:00:46# 128. lþ. 46.2 fundur 91. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[14:00]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin. Það er vissulega fagnaðarefni að ákveðin framþróun varð í þessu máli sem þökkuð verður kannski ekki síst forustu Noregs. Að sjálfsögðu hefur á flestan hátt verið sómi að því hvernig Noregur hefur staðið að málum í setu sinni í öryggisráðinu og formennskutíð í viðskiptabannsnefndinni. Vitanlega er eðlilegt að Ísland fylgi Noregi að málum og styðji frumkvæði þess enda í samræmi við nefnda ályktun Alþingis.

Það sem ég vil til viðbótar nefna í þessu sambandi er að ég held að þessu máli þyrfti að fylgja eftir og Ísland ætti að leggja þar sitt lóð á vogarskálar. Lærdómnum af aðgerðunum gegn Írak ætti að fylgja eftir með endurmati á þessari aðferðafræði og þessum reglum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þannig að ef til þess kemur að menn vilja beita einhvers konar efnahagslegum þrýstiaðgerðum eða tækjum af því tagi séu þeir betur undir það búnir að gera það miðað við mismunandi aðstæður sem augljóslega þarf einnig að hafa í huga. Ég held að lærdómurinn af Írak, borið saman við Suður-Afríku og fleiri slík tilvik, sé sá að það eigi að sjálfsögðu að einbeita sér að viðskiptabanni með hergögn og vígbúnað, það eigi að beina banninu að þeim þáttum sem stjórnvöld eru viðkvæm fyrir ef þau eru sá aðili sem ætlunin er að refsa, t.d. með fjárfestingarbanni eða pólitískri einangrun en síður að viðskiptum með almennan varning. Það sýnir sig auðvitað að það er fyrst og fremst almenningur sem verður fyrir áhrifum af slíku banni og af þessu þyrftu menn auðvitað að læra. Að sjálfsögðu vona ég svo, eins og hæstv. utanrrh., að vopnaeftirlitið verði árangursríkt, að ekki verði reynt að bregða fyrir það fæti af hvorugum aðilanum, Írökum eða Bandaríkjamönnum, og þannig verði komist hjá átökum í landinu.