Hjúkrunardeild fyrir aldraða í Árborg

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 14:03:20 (2044)

2002-12-04 14:03:20# 128. lþ. 46.3 fundur 144. mál: #A hjúkrunardeild fyrir aldraða í Árborg# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[14:03]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Mjög alvarleg staða hefur verið um árabil hvað varðar hjúkrunarrými fyrir aldraða á Suðurlandi. Á Selfossi hefur um árabil verið nýtt sem hjúkrunarheimili gamalt og löngu úrelt sjúkrahús, Ljósheimar, sem margoft hefur verið sýnt fram á að er alls ófullnægjandi sem slíkt auk þess sem rýmið þar er mjög takmarkað. Árið 1998 kom fram á Alþingi að undirbúningur að nýbyggingu fyrir hjúkrunarheimili væri vel á veg kominn en því miður hefur málið tafist í kerfinu, og ekki hafa byggingarframkvæmdir enn verið hafnar þó að nokkrir fjármunir hafi legið fyrir, þ.e. um 70 millj. á þessu ári. Hæstv. heilbrrh. lýsti því yfir síðast í mars á þessu ári að hann áliti byggingu nýs hjúkrunarheimilis við Sjúkrahús Suðurlands vera forgangsverkefni, að framkvæmdir yrðu hafnar strax eftir næstu áramót og byggð yrði 1.100 fermetra bygging á tveimur hæðum með kjallara að hluta. Fagna ég sérstaklega þeim áformum.

Nú er það svo að við sem höfum tekið þátt í umræðum um nauðsyn þess að byggja nýtt hjúkrunarheimili í stað Ljósheima alveg frá 1998 eða lengur erum orðin nokkuð brennd af því að framkvæmdahraðinn standist ekki fyllstu væntingar, svo að ekki sé sterkar að orði komist, og óttumst að enn kunni að vera nokkuð langt í land með að hægt verði að koma hjúkrunarsjúklingum fyrir í þessari mjög svo þörfu byggingu.

Í þessu nýja kjördæmi eru líka talandi dæmi um sjúkrahús sem hafa risið og verið innréttuð en ekki verið hægt að taka í notkun vegna fjárskorts. Ég hef haft spurnir af því á síðustu mánuðum að aldrað fólk sem mjög var af dregið og hafði verið vistað á Sjúkrahúsi Suðurlands til lækninga hafi síðan verið sent heim þótt þar væri engin aðstaða til að sjá um það því ekki mátti teppa rúm á sjúkrahúsinu lengur. Ekki var hægt að vísa á neitt tiltækt hjúkrunarrými fyrir aldraða, ekki einu sinni á fyrrnefndum Ljósheimum, og ekki var heldur fyrir hendi rými í Hveragerði. Það er spurning þar sem vandinn er svo stór hvort ekki sé hægt að taka eitthvert rými á Sjúkrahúsi Suðurlands eða þá annars staðar undir hjúkrunarrými fyrir aldraða meðan beðið er eftir nýja hjúkrunarheimilinu. En ég hef lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. heilbrrh.:

1. Hver er núverandi staða áætlana um byggingu hjúkrunardeildar fyrir aldraða í Árborg?

2. Mun ráðherra við afgreiðslu fjárlaga beita sér fyrir að tryggja nægilegt fé til framkvæmdanna á næsta ári?