Hjúkrunardeild fyrir aldraða í Árborg

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 14:11:15 (2047)

2002-12-04 14:11:15# 128. lþ. 46.3 fundur 144. mál: #A hjúkrunardeild fyrir aldraða í Árborg# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[14:11]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar. Þetta mál hefur margoft verið til umræðu hér á Alþingi og í raun og veru óþarft að hafa mörg orð um aðstöðuna á þessum stað en ég gleðst mjög yfir að heyra að hæstv. ráðherra hafi ákveðið að strax eftir áramót fari fram útboð á því að byggja upp hjúkrunarheimili og viðbyggingu við sjúkrahúsið á Selfossi. Þetta skiptir afar miklu máli fyrir Suðurland og þetta skiptir auðvitað afar miklu máli fyrir öldrunarþjónustu á þessu svæði. Eins og fram hefur komið hjá hæstv. ráðherra er gert ráð fyrir því í fjárlögum að verja 60 millj. til þessa verkefnis á fjárlögum ársins 2003. Auk þess kemur nú fram að Framkvæmdasjóður aldraðra mun veita um 50 millj. í þetta verk. Hér er um brýnt verk að ræða og mjög kostnaðarsamt og það skiptir okkur líka miklu máli að því ljúki hratt og vel.