Hjúkrunardeild fyrir aldraða í Árborg

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 14:18:22 (2052)

2002-12-04 14:18:22# 128. lþ. 46.3 fundur 144. mál: #A hjúkrunardeild fyrir aldraða í Árborg# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[14:18]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil láta það koma fram að hönnun þessa mannvirkis hefur verið í fullum gangi á yfirstandandi ári. Til þess voru lagðir verulegir fjármunir. Ef ég man rétt eru komnar 70 millj. inn á þetta verk á yfirstandandi ári án þess að ég hafi þá tölu undir höndum. Ég endurtek hins vegar að ég vonast til að í byrjun næsta árs getum við boðið þetta verk út og að það verði unnið í samfellu.

Ég endurtek að bygging öldrunarheimila er forgangsverkefni. Ég hef tvisvar skoðað Ljósheima rækilega á ferli mínum sem heilbrrh. og það þarf ekkert að lýsa fyrir mér aðstöðunni þar en hönnunin er miðuð við 26 rúm eins og kom fram í svari mínu.

Hér hefur verið nefnd dagvistun. Það er einmitt eitt af því sem felst í samkomulagi ríkisstjórnarinnar og aldraðra, að setja inn aukna peninga til dagvistunar. Í þeim tillögum sem meiri hluti fjárln. leggur fram fyrir 3. umr. eru auknir fjármunir til þeirra hluta. Ég tel mjög mjög áríðandi að efla slík úrræði og einnig eigi að horfa til heimaþjónustu í þessu sambandi. En þetta samkomulag felur líka í sér að auka fjármuni til þess. Það er þáttur í þeirri stefnu að gera fólki kleift, meðan mögulegt er, að búa í sínu umhverfi. Það er stefna ráðuneytisins að svo verði. Það er ekki takmark í sjálfu sér að komast inn á stofnanir þó að þær séu auðvitað bráðnauðsynlegar.