Öldrunarstofnanir

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 14:20:53 (2053)

2002-12-04 14:20:53# 128. lþ. 46.4 fundur 296. mál: #A öldrunarstofnanir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[14:20]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Herra forseti. Samkvæmt mannfjöldaspám mun þeim sem eru 67 ára og eldri fjölga verulega á næstu árum og áratugum. Í dag eru um 30 þúsund manns 67 ára og eldri. En þeim mun fjölga um helming og verða um 60 þúsund manns eftir um þrjá áratugi.

Meginmarkmið laga um málefni aldraðra er að stuðla að því að aldraðir geti búið við eðlilegt heimilislíf eins lengi og unnt er en þeim jafnframt tryggð stofnanaþjónusta þegar þörf er.

Íslendingar hafa lagt mikla áherslu á uppbyggingu öldrunarstofnana á síðustu áratugum. Nú er svo komið að einna hæst hlutfall aldraðra yfir 67 ára aldri er á stofnunum hér á landi í samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðir. Þegar horft er til aldurshópsins yfir áttrætt þá eru um 35% þeirra á öldrunarstofnunum. Á hinum Norðurlöndunum er hlutfallið 20%, að Noregi undanskildu þar sem um 25% 80 ára og eldri eru á stofnunum.

Því hefur verið haldið fram að Íslendingar leggi of mikla áherslu á að byggja opinberar stofnanir til að mæta þörfum aldraðra en minni áherslu á að styðja þá til að búa sem lengst heima hjá sér. Samanburðartölur milli Norðurlanda benda til að nokkuð sé til í þeirri fullyrðingu. Sl. vor gaf heilbr.- og trmrn. út hefti sem innihélt áætlun um uppbyggingu öldrunarþjónustu árin 2002--2007. Þar kemur m.a. fram það mat ráðuneytisins að taka þurfi í notkun 400--450 ný hjúkrunarrými á næstu fimm árum til loka ársins 2000--2007, langflest á höfuðborgarsvæðinu. Þessi skortur á hjúkrunarrýmum á Stór-Reykjavíkursvæðinu er vel þekktur og brýnt að bæta úr honum. Það vekur athygli í skýrslu ráðuneytisins hve mikið misræmi er milli áætlunar um uppbyggingu öldrunarþjónustu annars vegar og heilbrigðisáætlunar hins vegar, sem samþykkt var fyrir réttu ári síðan. Í heilbrigðisáætlun til ársins 2010 er miðað við að ekki dveljist hærra hlutfall en 25% 80 ára og eldri á öldrunarstofnunum. Miðað við þessi mörk eru hjúkrunarrými í landinu í dag nægilega mörg, þ.e. 200 umfram þörf, eins og kemur fram í skýrslu ráðuneytisins frá síðasta vori. Í sömu skýrslu segir hins vegar að samkvæmt mati á raunverulegri þörf fyrir hjúkrunarrými skorti um 300 rými til að mæta þörfum aldraðra fyrir hjúkrunarrými.

Óumdeilt er að mikil þörf er fyrir uppbyggingu hjúkrunarrýma hér á höfuðborgarsvæðinu og hefur svæðið greinilega orðið út undan í þessum efnum. Hins vegar virðist nokkurt jafnvægi á framboði og eftirspurn á landsbyggðinni. Má jafnvel velta fyrir sér hvort umframframboð sé á stöku stöðum úti á landi og sveitarfélög beini jafnvel öldruðum einstaklingum á stofnanir sem ríkið fjármagnar og greiðir reksturinn fyrir til að spara sér kostnað vegna heimaþjónustu sem sveitarfélagið rekur og ber kostnað af.

Herra forseti. Nauðsynlegt er að átta sig á stöðu þessara mála um allt land. Því varpa ég fram fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. Í fyrsta lagi um hvert sé hlutfall aldraðra, annars vegar 80 ára og eldri og hins vegar 67 ára og eldri, á öldrunarstofnunum hér á landi, sundurliðað eftir núverandi kjördæmaskipan. Í öðru lagi: Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að fylgja eftir markaðri heilbrigðisáætlun til ársins 2010?