Öldrunarstofnanir

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 14:24:10 (2054)

2002-12-04 14:24:10# 128. lþ. 46.4 fundur 296. mál: #A öldrunarstofnanir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[14:24]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 19. þm. Reykv., Ásta Möller, hefur beint til mín fyrirspurn sem fjallar annars vegar um hlutfall aldraðra á öldrunarstofnunum hér á landi og hins vegar um hvað heilbrrn. ætli að gera til að ná markmiðum heilbrigðisáætlunar um að ekki dveljist hærra hlutfall en 25% 80 ára og eldri á stofnunum.

Meðfylgjandi upplýsingar falla ekki fyllilega að fyrirspurn hv. þm. þar sem aldursgreiningin tekur til aldraðra 65 ára og eldri en upplýsingarnar eru fengnar frá Hagstofu Íslands.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru árið 2000 samtals 3.082 einstaklingar 65 ára og eldri vistaðir á öldrunarstofnunum eða 9,4% sem hlutfall af aldurshópi. Í Reykjavík voru þeir 1.206 eða 6%, á Reykjanesi 515 eða 34,1%, á Vesturlandi 227 eða 13,4%, á Vestfjörðum 80 eða 8,9%, á Norðurlandi vestra 171 eða 13,2%, á Norðurlandi eystra 377 eða 11,6%, á Austurlandi 166 eða 11,5% og á Suðurlandi 340 eða 14,1%.

Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands voru árið 2000 samtals 2.149 einstaklingar 80 ára og eldri vistaðir á öldrunarstofnunum eða 27,8% sem hlutfall af aldurshópi. Í Reykjavík voru þeir 827 eða 17,6%. Á Reykjanesi 370 eða 132,3%. Þið takið eftir þessari tölu en hún á sér skýringar vegna þess að á Reykjanesi eru stórar stofnanir sem taka vistmenn frá öðrum svæðum. Þó að þetta stingi svolítið í augun eru til skýringar á þessu. Á Vesturlandi 153 eða 36,3%, á Vestfjörðum 60 eða 28,6%, á Norðurl. v. 131 eða 36,2%, á Norðurl. e. 294 eða 36,2%, á Austurlandi 108 eða 30,4% og á Suðurlandi 206 eða 34,6%.

Virðulegi forseti. Hv. þm. spyr einnig hvað heilbr.- og trmrn. ætli að gera til að ná markmiðum heilbrigðisáætlunar um að ekki dveljist hærra hlutfall en 25% 80 ára og eldri á stofnunum. Eins og fram kemur í svarinu er hlutfall einstaklinga 80 ára og eldri sem dveljast á öldrunarstofnunum 27,8%. Markmið heilbrigðisáætlunar til ársins 2010 eru að þetta hlutfall verði innan við 25%.

Ég hef áður sagt að það er sannfæring mín að enn megi ná árangri í þá átt að hjálpa öldruðum við að búa lengur á eigin heimili með aukinni þjónustu, dagvistarúrræðum, hvíldarinnlögnum, öflugri heimaþjónustu og heimahjúkrun. Að þessu er stefnt með eftirtöldum aðgerðum:

Áformað er að fjölga dagvistarrýmum um 130 á næstu 5--6 árum.

Í öðru lagi að fjölga rýmum til hvíldarinnlagna fyrir aldraða um 20 á næstu 12--15 mánuðum.

Í þriðja lagi að efla heimaþjónustu með áherslu á að samhæfa þjónustu sem er á vegum ríkisins annars vegar, heimahjúkrun, og sveitarfélaga, félagslega heimaþjónustu, hins vegar.

Í framhaldi af tillögum starfshóps um málefni aldraðra sem nýlega skilaði áliti sínu hefur verið ákveðið að verja 150 millj. kr. í þetta verkefni á næstu þremur árum.

Auk þeirra aðgerða sem hér hafa verið taldar styður heilbr.- og trmrn. ýmis verkefni sem miða að því að bæta aðstæður aldraðra. Í því sambandi má nefna að Framkvæmdasjóður aldraðra hefur stutt sveitarfélög til að koma sér upp bækistöðvum fyrir heimaþjónustu, oft í tengslum við félagsmiðstöðvar sem sjóðurinn hefur styrkt. Félög eldri borgara hafa verið studd til að koma sér upp félagsaðstöðu hér á höfuðborgarsvæðinu og víða um land. Þá má geta þess að ráðuneytið og Framkvæmdasjóður aldraðra hafa styrkt ýmis verkefni sem miða að því að efla þjónustu við aldraða, m.a. voru veittir styrkir í tengslum við stofnun miðstöðvar heimahjúkrunar í Reykjavík og einnig verkefni er lúta að svokölluðum heilsueflandi heimsóknum til aldraðra.

Til fróðleiks má geta þess að tilraun við heilsueflandi heimsóknir hófst á Akureyri fyrir nokkrum missirum. Í því felst að öldruðum er boðið upp á heimsókn fagfólks sem fært er um að veita leiðbeiningar og ráðleggingar um heilbrigði, réttindamál og margt fleira sem kemur öldruðum til góða. Jafnframt veitir þetta mikilvæga innsýn í aðstæður aldraðra og dregur úr hættu á að aldraðir einstaklingar einangrist eða verði af nauðsynlegri aðstoð eða þjónustu sem þeir eiga rétt á. Mér er kunnugt um að þetta verkefni hafi gefið mjög góða raun og tel æskilegt að þessi þjónusta verði í framtíðinni sjálfsagður hluti af heilbrigðis- og félagslegri þjónustu við aldraða.