Heilbrigðisstofnun Suðurnesja

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 14:51:34 (2066)

2002-12-04 14:51:34# 128. lþ. 46.6 fundur 366. mál: #A Heilbrigðisstofnun Suðurnesja# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[14:51]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. spyr um fyrirætlanir varðandi rekstur D-álmu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í ljósi þeirra fjárveitinga sem til starfseminnar eru ætlaðar á fjárlögum þessa árs. Því er til að svara að í frv. til fjárlaga fyrir árið 2003 er gert ráð fyrir 60 millj. kr. til reksturs 2. hæðar D-álmu. Sú fjárveiting er samkvæmt tillögu frá heilbrigðisstofnuninni en samkvæmt endurskoðaðri áætlun um rekstur sjúkradeildar á 2. hæð er ljóst að sú upphæð dugar engan veginn til að starfrækja deildina að fullu. Miðað við þessa fjárveitingu má gera ráð fyrir að á deildinni verði u.þ.b. tíu rúm fyrir aldraða, að hluta til í langlegu, áætluð sex rúm, og fjögur rúm eru ætluð til hvíldarinnlagna.

Hv. þm. spyr einnig um viðbrögð við þeim vanda sem skapast hefur vegna uppsagna heilsugæslulækna á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Eins og ítrekað hefur komið fram, bæði í þessum sal og í fjölmiðlum, hefur af hálfu ráðueytisins verið unnið ötullega að því að leysa þennan vanda. Fundir með talsmönnum heilsugæslulækna voru haldnir um málið og 27. nóvember sl. gaf ég út yfirlýsingu sem ég vonast til að leysi málið að því marki sem það er í mínum höndum.

Þar sem heilsugæslulæknar á Suðurnesjum höfðu þegar látið af störfum þegar yfirlýsingin var gefin út er ljóst að þeir munu þurfa að sækja um störf að nýju við stofnunina sem ég veit að þeir eru að gera þessa daga. Það er einlæg von mín að sú yfirlýsing sem ég gaf út í síðustu viku verði til þess að leysa þann vanda sem við hefur verið að glíma varðandi störf heilsugæslulækna og ég mun vissulega vinna ötullega að því áfram.