Heilbrigðisstofnun Suðurnesja

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 14:53:32 (2067)

2002-12-04 14:53:32# 128. lþ. 46.6 fundur 366. mál: #A Heilbrigðisstofnun Suðurnesja# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[14:53]

Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin við þessum spurningum en vil jafnframt geta þess að það skiptir okkur Suðurnesjamenn miklu máli að starfsemi heilbrigðisþjónustunnar og sérstaklega hjúkrun aldraðra sem fyrirhuguð er í D-álmunni komist sem fyrst á þann rekspöl sem ætlunin var. Barátta hefur staðið um langt árabil fyrir því að þessi bygging komist í gagnið og þess vegna eru sífellt vonbrigði fyrir íbúa á Suðurnesjum hvað vill verða mikill dráttur á því að þjónustan verði sett af stað.

Varðandi heilsugæsluna og heimilislækna vil ég sérstaklega nefna að menn fýsir að vita hvort ráðherra álíti að tillaga hans til lausnar verði til að tryggja þessa þjónustu til frambúðar. Auðvitað skiptir miklu máli að hann hefur lagt fram það sem hann gat en það skiptir líka máli fyrir íbúana að geta gert sér grein fyrir því hversu líklegt er að það leysi málið til frambúðar, ekki aðeins meðan versti hnúturinn gengur yfir.