Safn- og tengivegir

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 15:13:41 (2076)

2002-12-04 15:13:41# 128. lþ. 46.8 fundur 290. mál: #A safn- og tengivegir# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[15:13]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda að gott samgöngukerfi skiptir mjög miklu máli.

En fyrirspurn hv. þm. er í fyrsta lagi:

,,Hver er nú heildarlengd safnvega, tengivega og styrkvega á landinu?``

Heildarlengd þjóðvega miðað við síðustu áramót er 12.955 km. Þar af eru tengivegir 3.929 km og safnvegir 2.288 km. Styrkvegir eru eins og nafnið bendir til vegir í umsjá ýmissa aðila sem Vegagerðinni er heimilt að veita styrki til samkvæmt 16. gr. vegalaga. Þar eru þessir vegir skilgreindir og þar er jafnframt tekið fram að þeir sem styrkinn fá annist viðhald viðkomandi vegar. Ekki liggja fyrir neinar tæmandi upplýsingar um lengd þessara vega eða ástand þeirra.

Í öðru lagi spyr þingmaðurinn:

,,Hvert hefur fjárframlag verið til þeirra sl. fimm ár og hver hefur verið hlutur þeirra miðað við heildarframlag til viðhalds- og stofnkostnaðar í vegamálum á landinu þessi ár að meðtöldum sérstökum fjárveitingum til stórverkefna?``

[15:15]

Árið 1998 voru fjárveitingar til þessara vega sem hér segir: Tengivegir 420 millj. kr., safnvegir 209 millj. kr. og styrkvegir 30 millj. kr. eða samtals 659 milljónir og er það um 12% það ár af fjárveitingum til viðhalds og stofnkostnaðar þjóðvega. Árið 1999 eru tölurnar þannig að tengivegir eru 449 millj. kr., safnvegir 224 millj. kr. og styrkvegir 30 millj. kr. eða samtals 703 milljónir og eru það 9% af viðhalds- og stofnkostnaði. Árið 2000 eru tölurnar þannig að tengivegir eru 485 millj. kr., safnvegir 248 millj. kr. og styrkvegir 36 millj. kr., alls 769 milljónir eða um 10% viðhaldsstofnkostnaðar. Árið 2001 fá tengivegir 496 millj. kr., safnvegir 290 millj. kr. og styrkvegir 57 millj. kr. sem hækkaði verulega. Samtals fá þessir vegir það ár 843 milljónir eða 10%. Á árinu 2002 er tölurnar sem hér segir: Tengivegir 477 millj. kr., safnvegir 272 millj. kr., styrkvegir 54 millj. kr. Þessir vegir fá því alls 803 milljónir eða 10% stofnkostnaðar og viðhalds. Allar tölur eru á verðlagi 2002 og eru því sambærilegar. Fjárveitingar til umræddra vega hafa því hækkað á þessu tímabili úr 659 milljónum 1998 í 803 milljónir 2002 eða um 22% á föstu verðlagi. Lækkun hlutfallstölunnar á sama tíma stafar af tvennu, þ.e. nýbyggingar hafa farið mjög vaxandi á þessu tímabili og skilgreiningu viðhalds þjóðvega í þéttbýli var breytt á tímabilinu þannig að viðhald þjóðvega hækkaði verulega af þeim sökum.

Í þriðja lagi spyr hv. þm.: ,,Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að hlutur þessara vega, þ.e. sveitaveganna, verði aukinn í heildarfjárveitingum til viðhalds- og stofnkostnaðar í vegakerfi landsins?``

Eins og kom fram í svari við annarri spurningu hefur fjármagn aukist á undanförnum árum til umræddra vega. Hin mikla þörf stofnveganna fyrir fjármagn setur þó skorður við því hve miklum fjármunum er unnt að verja til þeirra vega sem hér um ræðir, svo og annarra vega með litla umferð. Nú er unnið að samgönguáætlun bæði til tólf ára og til fjögurra ára. Við þá vinnu er miðað við að halda áfram að auka við fjárveitingar til umræddra vega þó að fjárþörf aðalveganna setji því áfram skorður.

Í fjórða lagi er spurt: ,,Mun ráðherra beita sér fyrir endurskilgreiningu á heitum einstakra vegaflokka í vegalögum, svo sem styrkvega, með tilliti til breyttra aðstæðna?``

Skilgreining einstakra vegaflokka er í vegalögum. Flokkar þjóðvega eru fjórir: Stofnvegir, tengivegir, safnvegir og landsvegir. Styrkvegir eru svo í sérstökum flokki eins og áður kom fram. Skilgreining allra þessara flokka er óbreytt frá því að vegalög voru síðast endurskoðuð árið 1994. Ekki hafa komið fram sérstakar ábendingar um að breyta skilgreiningu svo nokkru nemi.

Í tillögum stýrihóps um samgönguáætlun sem sendar voru þingmönnum síðasta vetur komu þó fram hugmyndir sem gera það e.t.v. að verkum að fara eigi yfir flokkun þjóðveganna að nýju. Nægur tími er til þess að skoða það mál vegna þess að samgönguáætlun verður til meðferðar og afgreiðslu á þessum vetri eins og hv. þm. vita.