Safn- og tengivegir

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 15:19:46 (2078)

2002-12-04 15:19:46# 128. lþ. 46.8 fundur 290. mál: #A safn- og tengivegir# fsp. (til munnl.) frá samgrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[15:19]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek undir nauðsyn þess að bæta við fjármagni í safn- og tengivegi og að endurskoða þurfi þá skilgreiningu sem er á safn- og tengivegum í vegáætlun eða í vegalögum. Ég vil einnig beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort ekki verði við afgreiðslu samgönguáætlunar tekin upp ný skilgreining á því hvernig skipta beri fjármagni til vegagerðar vegna nýrrar kjördæmaskipunar þar sem ég held að mikil nauðsyn sé á að gera heildarúttekt á stöðu mála í hverju nýju kjördæmi og hugsa allar fjárveitingar til samgöngumála upp á nýtt út frá nýrri svæðaskiptingu. Það er þekkt að þingmannahópar taka heildarfjárveitingar og skipta og þar hafa verið árekstrar, ég nefni t.d. Suðurstrandarveginn þar sem þingmannahópar úr Reykjaneskjördæmi og Suðurlandskjördæmi gamla hefðu kannski mátt vera samstiga heldur fyrr. Nú er þetta allt innan sama kjördæmis. Ég tel því mikla nauðsyn á að skilgreina þessi svæði algerlega upp á nýtt.