Safn- og tengivegir

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 15:22:02 (2080)

2002-12-04 15:22:02# 128. lþ. 46.8 fundur 290. mál: #A safn- og tengivegir# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[15:22]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svörin og fagna þeim áherslum sem komu fram í máli hans varðandi safn- og tengivegi eða sveitavegina. Sömuleiðis þakka ég hv. þm. sem hér hafa lagt hvatningarorð inn í umræðuna.

Ég vil vekja athygli á skilgreiningu á styrkvegum sem mér finnst afar ósanngjörn, þ.e. að falli flugvöllur t.d. úr áætlunarflugi, þá fellur vegurinn að flugvellinum úr tölu þjóðvega í styrkveg, í einskismannsveg eða munaðarlausan veg en áfram er flugvöllurinn hluti af öryggis- og flutningakerfi landsins.

Sömuleiðis ef býli fer úr byggð um einhvern ákveðinn tíma þá fellur vegurinn þar um líka úr tölu þjóðvega og í styrkveg. Komi síðan veghaldari, einhver sem vill halda veginum við, þá verður hann allt í einu orðinn ábyrgur fyrir umferð á veginum. Þetta er algerlega úrelt.

Ég vil líka leggja áherslu á að í byggðaáætlun sem við samþykktum í vor og var talin af hæstv. ríkisstjórn og meiri hluta Alþingis mjög metnaðarfull, er lögð rík áhersla á eflingu samgangna og nauðsyn þess að gera stórátak í vegamálum einkum í dreifbýli og fátt yrði betri byggðaaðgerð en einmitt það. Ég tel því að brýnt sé að breyta þessum vegaflokkum og jafnframt að efnt verði til nokkurs konar stórframkvæmdar, stórátaks í að endurbæta og gera upp vegina, einmitt þessa sveitavegi, safn- og tengivegi sem er eiginlega orðin forsenda fyrir samkeppnishæfri búsetu víða um land.