Hækkun póstburðargjalda

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 15:29:54 (2083)

2002-12-04 15:29:54# 128. lþ. 46.9 fundur 327. mál: #A hækkun póstburðargjalda# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[15:29]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þann áhuga sem hann sýnir þessu máli og mun svara þessari fyrirspurn á eftirfarandi hátt:

Skipta má aðgerðum sem gripið hefur verið til í tvennt. Annars vegar aðgerðir sem Íslandspóstur hefur ákveðið til að draga úr og milda áhrif hækkana á blöðum og tímaritum, þegar sérgjaldskrá fyrir blöð og tímarit var felld úr gildi 3. júlí sl., og hins vegar þær aðgerðir sem samgrn. hefur gripið til vegna þessara mála.

[15:30]

Aðgerðir Íslandspósts eru eftirfarandi:

Þegar umrædd gjaldskrá var felld úr gildi var þeim viðskiptavinum Íslandspósta hf. sem senda blöð og tímarit í áskrift boðinn aðlögunarsamningur í 18 mánuði til að dreifa hækkuninni á milli sérgjaldskrár fyrir blöð og tímarit og almennrar gjaldskrár fyrir bréf. Hækkunin til þessara aðila var að jafnaði 15% fyrir fyrstu sex mánuði aðlögunartímabilsins. Þá hefur Póst- og fjarskiptastofnun verið kynnt, sem hún samþykkti fyrir sitt leyti, lækkun áritaðra bréfa í 250 gramma þyngdarflokki úr 120 kr. í 95 kr. og 500 gramma þyngdarflokki úr 195 kr. í 140 kr. Þessari lækkun er ætlað að taka gildi 1. jan. 2003. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandspósti hf. ættu ýmis tímarit og blöð félagasamtaka að njóta góðs af þessari lækkun.

Í annan stað eru aðgerðir ráðuneytisins. Í ágúst skipaði ég starfshóp um dreifingu blaða og tímarita. Í honum eiga sæti Björn Jósef Arnviðarson, stjórnarformaður Íslandspósts, Ísólfur Gylfi Pálmason, alþingismaður og stjórnarmaður í fyrirtækinu, Áskell Jónsson, framkvæmdastjóri Íslandspósts, Friðrik Pétursson, forstöðumaður hjá Póst- og fjarskiptastofnun, og Halldór S. Kristjánsson, skrifstofustjóri í samgrn., sem jafnframt er formaður hópsins.

Starfshópurinn hefur unnið ötullega að þessu verkefni og kynnt sér ýmis gögn, svo sem þann kostnað sem blöð og tímarit hafa af dreifingu. Einnig kynnti starfshópurinn sér álit Samkeppnisráðs frá árinu 1995 varðandi kvörtun yfir mismun Póst- og símamálastofnunar við innritun blaða og tímarita. Ráðið tók til skoðunar ákvæði þágildandi reglugerðar um póstþjónustu með tilliti til markmiðs samkeppnislaga, einkum þau ákvæði sem fjalla um það skilyrði að það fari eftir efni blaðs eða tímarits hvort það verði innritað og njóti sérstakra kjara í formi póstburðar og hins vegar að auglýsingar taki eigi meira en helming af rými blaðs eða tímarits.

Ekki er hægt að greina ítarlega frá niðurstöðu Samkeppnisráðs hér. Það mun starfshópurinn gera í skýrslu sinni til mín. En þó er hægt að greina frá því að samkeppnisráð mælir eindregið gegn því að miða reglur við hverjir eigi að eiga rétt á niðurgreiðslum við efni blaða og tímarita þar sem slíkar reglur eru erfiðar í framkvæmd og bjóða heim hættu á mismunun. Niðurstaða samkeppnisyfirvalda var því sú að ef talið yrði rétt að niðurgreiða kostnað við dreifingu blaða og tímarita þá ætti að gera það með beinum framlögum og byggja á kostnaðarlegum forsendum.

Starfshópurinn fékk m.a. það verkefni að kanna hvort önnur lönd greiddu niður póstburðargjöld vegna dreifingar blaða og tímarita. Í ljós kom að aðeins tvö Evrópuríki gerðu það, þ.e. Danmörk og Austurríki. Einn úr starfshópnum kynnti sér sérstaklega framkvæmd Dana við niðurgreiðslur á þessum gjöldum og er ítarlega greint frá henni í skýrslu hans til starfshópsins.

Í frumdrögum að skýrslu starfshópsins til mín koma fram eftirtaldar leiðir sem hugsanlega væri hægt að viðhafa yrði tekin sú ákvörðun að niðurgreiða dreifingarkostnað blaða og tímarita.

Fyrsti möguleikinn er að greiðslur fari beint til Íslandspósts hf. Kostirnir væru m.a. þeir að það er einfalt í framkvæmd, greiðslurnar færu til eins aðila, létt væri að halda utan um þær og stjórnsýslukostnaður yrði í lágmarki. Gallinn við þessa dreifingu er að í raun er engin samkeppni, með þeirri afleiðingu að Íslandspóstur hefði einokunaraðstöðu á dreifingu blaða og tímarita.

Annar möguleikinn er að öðrum dreifingaraðilum en þeim yrði gefinn kostur á greiðslum. Kosturinn við þessa leið er að með henni eru sköpuð skilyrði fyrir samkeppni á þessum markaði, en hún yrði dýrari vegna þess að greiðslurnar rynnu til fleiri en eins aðila með auknum kostnaði við eftirlit.

Þriðji möguleikinn er að greiðslur renni beint til þeirra sem rétt eiga á niðurgreiddum burðargjöldum. Hér er um einfalt kerfi að ræða. Útgefendur dagblaða og tímarita réðu því sjálfir við hverja þeir ættu viðskipti, án afskipta ríkisvaldsins, en væntanlega þyrfti að koma á fót eftirliti með því að greiðslurnar renni til þess sem ætlunin er að greiða, þ.e. greiða niður dreifingu blaða og tímarita.

Starfshópurinn er u.þ.b. að ljúka verkefni sínu. Ég á von á að alveg á næstunni muni það liggja fyrir. Ég tel ágætt að það verði haft til hliðsjónar þegar hv. samgn. fjallar um frv. til breytinga á póstlögunum sem hér er til meðferðar í þinginu. Þannig verður hægt að taka tillit til ábendinga sem m.a. koma fram í fyrirspurn hv. þm.