Umferðaröryggi á Gemlufallsheiði

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 15:43:12 (2088)

2002-12-04 15:43:12# 128. lþ. 46.10 fundur 343. mál: #A umferðaröryggi á Gemlufallsheiði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[15:43]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég beini fsp. til hæstv. samgrh. um umferðaröryggi á Gemlufallsheiði. Gemlufallsheiði er heiðin milli Önundarfjarðar og Þingeyrar. Íbúar Þingeyrar þurfa að keyra um þessa heiði til að sækja þjónustu til Ísafjarðar. Þetta gildir bæði um verslun, skólagöngu framhaldsskólanema, um alla opinbera þjónustu og margt fleira, en Ísafjörður og Þingeyri voru jú sameinuð í eitt sveitarfélag.

Á þessari heiði hafa orðið alvarleg slys og óhöpp nú á undanförnum mánuðum og fólk er uggandi um ferðir yfir heiðina. Svo mikill er uggurinn, virðulegi forseti, að á haustdögum beittu Vestfirðingar sér fyrir undirskriftasöfnun um áskorun á Vegagerðina og samgönguyfirvöld um að bæta úr öryggismálum á Gemlufallsheiði með því að setja upp vegrið þar til styrktar og öryggis. Nærri 800 manns á Vestfjörðum skrifuðu á skömmum tíma undir áskorun um úrbætur.

Þessari stöðu er kannski best lýst í bréfi sem samgn. Alþingis barst frá Kristínu Theódóru Hreinsdóttur, sem er læknir á Ísafirði. Ég ætla hér að leyfa mér að lesa það, með leyfi forseta:

,,Þingeyri, 28. okt., 2002.

Undirrituð starfar sem læknir við Heilbrigðisstofnunina í Ísafjarðarbæ. Innifalið í starfi mínu er að ég þarf að fara nokkrar ferðir milli Ísafjarðar og Þingeyrar í viku hverri. Mér, eins og mörgum öðrum, er því ljós nauðsyn þess að sett verði vegrið meðfram vegarkafla niður af Gemlufallsheiði, Önundarfjarðarmegin, ofan í Bjarnardal.

Efst á þessum vegarkafla er hátt og bratt fyrir kant auk þess sem á þessu svæði öllu er mjög sviptivindasamt. Í hálku og vetrarveðrum getur þetta svæði orðið mjög varasamt yfirferðar. Hafa orðið þarna alvarleg slys en oftar hefur litlu mátt muna að illa færi.

Undirrituð er ekki eini starfsmaður Heilbrigðisstofnunarinnar til að þurfa að aka þessa leið reglulega. Auk okkar eru að sjálfsögðu margir aðrir sem þurfa að fara þarna um, sumir daglega, bæði vinnu sinnar vegna og af öðrum orsökum. Í ljósi þessa skora ég á til þess bær yfirvöld að sett verði vegrið á umræddan vegarkafla áður en vetur skellur á af fullum þunga.``

Herra forseti. Ég leyfi mér að beina þessari spurningu til hæstv. samgrh.: Verður ekki brugðist snarlega við og öryggi bætt á Gemlufallsheiði nú í haust eða eins fljótt og nokkur kostur er þannig að vegfarendur njóti meira öryggis þar þegar á þessum vetri?