Umferðaröryggi á Gemlufallsheiði

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 15:49:26 (2090)

2002-12-04 15:49:26# 128. lþ. 46.10 fundur 343. mál: #A umferðaröryggi á Gemlufallsheiði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., GAK
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[15:49]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Auðvitað ber að fagna því sem vel hefur verið gert, og vissulega hefur tekist ágætlega til við að lagfæra veginn yfir Gemlufallsheiði. Það breytir hins vegar ekki því að eins og vegurinn liggur eru á honum mjög hættulegir staðir. Sérstaklega á það við þegar byrjað er að fara niður af heiðinni Önundarfjarðarmegin. Í þeirri hlíð hafa orðið alvarleg slys eins og dæmin sanna, því miður.

Þess vegna er mikið til vinnandi að vegrið verði sett þar upp sem allra fyrst. Það væri auðvitað æskilegt að það yrði gert núna og nýttist mönnum við vetrarakstur. Ég heyri hins vegar á hæstv. ráðherra að hann telur talsverð tormerki á því. Ekki hefur frostið eða tíðarfarið orðið til þess að tefja það verk í vetur. Sjálfsagt væri hægt að vinna það enn. Ég hvet til þess að það verði unnið en það má líka bæta umferðaröryggi með sandburði og góðu eftirliti.