Umferðaröryggi á Gemlufallsheiði

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 15:52:01 (2092)

2002-12-04 15:52:01# 128. lþ. 46.10 fundur 343. mál: #A umferðaröryggi á Gemlufallsheiði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[15:52]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég tek undir þakkir til fyrirspyrjanda og þakka hæstv. samgrh. fyrir greinargóð svör við þessari fyrirspurn. Það er enginn vafi á því að þetta er eitt af mikilvægustu verkefnum okkar í sambandi við öryggismál á norðanverðum Vestfjörðum, að laga aðstæður á Gemlufallsheiðinni. Þó að vel hafi tekist til um uppbyggingu vegarins sjálfs um Gemlufallsheiði og hann hafi leyst mikinn vanda er öryggismálunum engu að síður áfátt og við vitum, eins og hér hefur komið fram, að þarna hafa orðið mjög alvarleg slys, m.a. banaslys nýlega.

Þess vegna hvet ég mjög til að reynt verði að hraða þessum framkvæmdum eins og kostur er. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. samgrh. að það sé ætlun Vegagerðarinnar að þetta verði næsta verkefni í sambandi við vegrið. Sé þess nokkur kostur tel ég mjög mikilvægt að reynt verði að gera það í vetur. Ég tel að um það sé algjör samstaða heimamanna og þingmanna, og ef til þess þarf að koma með einhverjum atbeina varðandi vegáætlun lýsi ég því yfir að ég mun a.m.k. beita mér fyrir því.