Samkeppnisstaða háskóla

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 16:04:36 (2097)

2002-12-04 16:04:36# 128. lþ. 46.11 fundur 319. mál: #A samkeppnisstaða háskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[16:04]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur fyrir þessa fyrirspurn.

Ég er því mjög fylgjandi að efla ríkisháskólana sem kennslu- og ekki síður sem rannsóknastofnanir. Hæstv. menntmrh. sagði að uppbygging háskólastigsins á Íslandi hefði ekki verið miðstýrð. Það er svo að hægt er að miðstýra með ýmsum hætti. Háskólarnir hafa kvartað sáran yfir fjársvelti og spurningin er þá hvort verið sé að miðstýra þessum stofnunum í átt til gjaldtöku, skólagjalda.

Rektor Háskóla Íslands ritaði grein í Morgunblaðið í gær og beindi spurningu til þingsins. Ég tek undir þá spurningu og beini henni til ríkisstjórnarinnar: Hvað vill hún varðandi gjaldtöku, skólagjöld? Telur hún koma til álita að taka upp skólagjöld á háskólastigi? Sjálfur er ég því mjög andvígur og teldi það vera alvarlega ávísun á misrétti til náms.