Ættleiðingar

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 18:05:03 (2101)

2002-12-04 18:05:03# 128. lþ. 46.14 fundur 379. mál: #A ættleiðingar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[18:05]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu viðfangsefni. Það er ljóst að mörg sjónarmið þarf að taka til skoðunar áður en ættleiðing fer fram. Er það flókið og þungt ferli en vitaskuld ekki að ástæðulausu. Fyrirspurnin er í fimm liðum og ég mun reyna að svara þeim eftir bestu getu.

Fyrsta spurningin er: ,,Hvaða skilyrði þurfa foreldrar að uppfylla til þess að fá útgefið forsamþykki til ættleiðingar barna?``

Umsækjendur um forsamþykki ráðuneytisins til að fá að ættleiða barn erlendis frá þurfa fyrst og fremst að uppfylla það almenna skilyrði 4. gr. ættleiðingarlaga að sýnt þyki að ættleiðingin sé barninu fyrir bestu enda sé ætlun ættleiðenda að annast og ala barnið upp. Auk þess þurfa þeir að uppfylla skilyrði 5. gr. laganna um lágmarksaldur en hið almenna viðmið er 25 ára aldur.

Í sambandi við það skilyrði að ættleiðing sé barni fyrir bestu bendi ég á þá reglu sem gildir í norrænum rétti og víðar að væntanlegir kjörforeldrar geti búið barni góðar og þroskavænlegar uppeldisaðstæður, bæði félagslegar og fjárhagslegar. Auk þess þarf geðræn og líkamleg heilsa þeirra að vera með þeim hætti að hún skerði ekki möguleika þeirra á því að veita barninu fullnægjandi aðhlynningu og umönnun. Að auki mega þeir ekki vera haldnir þeim líkamlegu sjúkdómum að þeir skapi hættu á því að þessu markmiði verði ekki náð og heldur ekki að þeir sjúkdómar skerði lífslíkur þeirra þannig að hætta sé á að þeir nái ekki þeim aldri að geta alið barnið upp til fullorðinsaldurs með fullnægjandi hætti.

Hér á landi hafa enn ekki verið mótaðar nákvæmar reglur um hvaða sjúkdómar skipti hér máli eins og gert er í öðrum norrænum ríkjum. Þau mál eru til skoðunar í ráðuneytinu og við ákvörðun um þau vandmeðförnu mál verður litið til hinna norrænu reglna eins og gert hefur verið í framkvæmd. Hér hafa þó ekki verið gerðar jafnstrangar kröfur til líkamlegs heilbrigðis umsækjenda eins og t.d. í Danmörku þar sem settar hafa verið reglur um fjölmarga sjúkdóma og annað þeim tengt, svo sem hjarta- og æðasjúkdóma, hækkaðan blóðþrýsting, lungna- og nýrnasjúkdóma, maga- og þarmasjúkdóma, sykursýki, offitu, krabbamein o.fl.

Samkvæmt lögum um ættleiðingar, nr. 130/1999, verður forsamþykki til ættleiðingar á erlendu barni ekki gefið út í ráðuneytinu nema að undangenginni könnun barnaverndarnefndar á aðstæðum væntanlegra kjörforeldra. Enn fremur er rétt að taka fram að í lögunum er ákvæði í 17. gr. um ættleiðingarnefnd sem veitir umsagnir í málum sem ráðuneytið leggur fyrir hana þegar vafi þykir leika á hvort veita skuli leyfi til ættleiðingar eða forsamþykkis til að ættleiða barn erlendis. Nefndin er skipuð lögfræðingi með mikla reynslu af ættleiðingarmálum, lækni sem einnig hefur slíka reynslu og sálfræðingi.

Önnur spurning: ,,Geta einstaklingar fengið að ættleiða börn?``

Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. ættleiðingarlaga er heimilt að leyfa einhleypum manni að ættleiða barn ef sérstaklega stendur á og ættleiðing er ótvírætt talin barninu til hagsbóta. Frá gildistöku laganna hefur níu einhleypum einstaklingum, sem í öllum tilvikum eru konur, verið veitt forsamþykki til að ættleiða börn erlendis en umsóknir hafa ekki borist um ættleiðingar hér á landi.

Þriðja spurning: ,,Geta hjón fengið að ættleiða börn ef annað þeirra hefur átt við veikindi að stríða en hitt er talið fullkomlega heilbrigt?``

Í samræmi við norrænan rétt hefur það ekki verið talið barni fyrir bestu að heimila frávik frá þeim skilyrðum sem gerð eru samkvæmt því sem fram kemur í svari við fyrstu spurningu að því er annað hjóna varðar þótt hitt teljist heilbrigt. Þetta verða að telja eðlilegar kröfur þegar litið er til þess að ekki er metið þegar hjón sækja um forsamþykki eða ættleiðingu hvort skilyrðum 4. mgr. 2. gr. ættleiðingarlaga sé fullnægt.

Að auki bendi ég á hve mikið álag alvarleg veikindi eða jafnvel dauði annars kjörforeldris hefði í för með sér fyrir kjörbarn, til viðbótar því að aðlagast nýrri fjölskyldu. Slíkt áfall í fjölskyldu mundi einnig að sjálfsögðu draga úr þrótti og getu hins heilbrigða eða eftirlifandi maka til þess að annast barnið með fullnægjandi hætti.

Fjórða spurning: ,,Gilda mismunandi reglur um ættleiðingu eftir því hvort barnið er íslenskt eða af erlendu bergi brotið?``

Þessari spurningu er ekki unnt að svara með ítarlegum hætti fremur en hinum fyrri án langra fræðilegra útlistana. Ég vil þó segja að að jafnaði gilda sömu reglur um ættleiðingar hvort sem barn er af íslensku eða erlendu bergi brotið. Þó er það svo að sum af þeim ríkjum sem gefa börn sín til ættleiðingar til Íslands gera aðrar kröfur en gilda samkvæmt íslenskum lögum um aldursmörk umsækjenda, hjúskaparstöðu og fleira.

Fimmta og síðasta spurning: ,,Telur ráðherra að fullkomið jafnrétti ríki við ættleiðingu barna á Íslandi?

Ég tel að hér á landi ríki fullkomið jafnrétti við ættleiðingar barna. Þá á ég að sjálfsögðu við sambærilegar félagslegar, fjárhagslegar og heilsufarslegar aðstæður umsækjenda um ættleiðingar eða forsamþykki til að ættleiða barn erlendis.