Ummæli um evrópskan vinnumarkað

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 18:14:14 (2104)

2002-12-04 18:14:14# 128. lþ. 46.16 fundur 364. mál: #A ummæli um evrópskan vinnumarkað# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[18:14]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Þessi fyrirspurn hefur velkst nokkuð lengi í kerfinu, ekki komist á dagskrá fyrr en nú, ýmist vegna fjarveru minnar frá þingi eða hæstv. ráðherra. Tilefnið er ummæli ráðherra á fundi fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington í lok septembermánaðar. Þá var haldinn ársfundur Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en jafnframt fór fram fundur í fjárhagsnefnd sjóðsins. Í nefndinni sitja 24 fulltrúar, formenn kjördæmisráða innan þessara stofnana og seðlabankastjórar, en Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands, er formaður þessarar nefndar. Hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde er nú talsmaður kjördæmisráðs Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna, og á þessum fundi hélt hann ræðu fyrir hönd þeirra. Hann kom inn á ýmsa þætti efnahagsmálanna, hvatti til þess að allar ákvarðanir í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum yrðu gerðar sem gagnsæjastar og aðgengilegastar fyrir almenning og það er margt sem fram kom í ræðu hans sem ég get tekið undir.

Tilefni fyrirspurnar minnar er ummæli hæstv. ráðherra varðandi vinnumarkaðinn í Evrópu. Þar hafa staðið miklar deilur um árabil um þau réttindakerfi sem eru við lýði í Evrópu. Atvinnurekendasamtök hafa barist fyrir því að dregið verði úr þessum réttindum og vinnumarkaðurinn gerður sveigjanlegri eins og það er kallað. Fyrirspurn mín til hæstv. ráðherra er eftirfarandi:

Hvaða hugmyndir liggja að baki ummælum ráðherra á nýafstöðnum fundi fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans sem skilja má svo að nauðsynlegt sé að draga úr ósveigjanleika á evrópskum vinnumarkaði?

Er það ekki stílbrot að íslenskur fjmrh. skuli blanda sér í þær deilur sem fram fara á evrópskum vinnumarkaði með þessum hætti?