Ummæli um evrópskan vinnumarkað

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 18:24:35 (2107)

2002-12-04 18:24:35# 128. lþ. 46.16 fundur 364. mál: #A ummæli um evrópskan vinnumarkað# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[18:24]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég ítreka að það er hvorki stílbrot né óviðeigandi að fjalla um þessi mál á þeim vettvangi þar sem þessi ummæli voru látin falla. Þvert á móti held ég að það hafi verið æskilegt að benda á þetta vandamál sem flestir viðurkenna að er fyrir hendi, enda var það gert ekki bara í nafni mínu eða ríkisstjórnar Íslands, heldur allra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna sömuleiðis.

En ég held að það sé rétt sem þingmaðurinn sagði að annars vegar er í Bandaríkjunum litið á þessi svokölluðu réttindi með allt öðrum hætti en gert er í Evrópu. En ég held að við hér á Íslandi höfum fundið ágætlega heppilega millileið sem hamlar því ekki að fyrirtækin geti hagrætt hjá sér, geti sameinast, geti gripið til þeirra ráðstafana í rekstri sem nauðsynlegar kunna að vera til að halda fyrirtækjunum og starfseminni gangandi. Halda þeim á lífi. Víða annars staðar er þetta því miður ekki svo. Það er sömuleiðis þannig í mörgum Evrópulöndum að fyrirtæki veigra sér beinlínis við því að taka fólk í vinnu vegna þess að það kann að verða svo erfitt að taka nýjar ákvarðanir eftir það.

Þetta ræða menn mjög opinskátt um alls staðar í Evrópu. Þetta ræða menn á fræðasviðinu, á vettvangi háskólanna að þarna þurfi að koma til umbætur, skipulagslegar umbætur í slíku umhverfi til þess að regluverkið stuðli ekki beinlínis að auknu atvinnuleysi, sem er jú markmið allra að draga úr. Frekar að hafa regluverkið þannig að það hjálpi til við að draga úr atvinnuleysinu. Um það snýst málið og ég held að umæða af þessu tagi, hvort sem hún fer fram á vettvangi gjaldeyrissjóðsins eða hér í þinginu, sé af hinu góða.