Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 18:27:30 (2108)

2002-12-04 18:27:30# 128. lþ. 46.15 fundur 341. mál: #A úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi GunnB
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[18:27]

Fyrirspyrjandi (Gunnar Birgisson):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. umhvrh. sem varðar úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, en eins og alkunna er er hún búin að vera starfandi núna í tæp fjögur ár.

Fyrirspurnin hljóðar svo:

1. Hve mörg mál hefur úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála fengið til umfjöllunar frá gildistöku skipulags- og byggingarlaga 1. janúar 1998?

2. Hve mörg mál hefur úrskurðarnefndin afgreitt á sama tíma?

3. Hver er afgreiðslutími mála hjá úrskurðarnefndinni að meðaltali og hver á hann að vera samkvæmt lögum?

4. Hve margir starfa hjá nefndinni?

Fyrirspurnin ómar kannski af áhyggjum í sveitarfélögunum víðs vegar, þar sem hlutir hafa verið kærðir til úrskurðarnefndarinnar og úrskurðir borist e.t.v. seint og illa og framkvæmdir og annað hefur verið stopp eða ekki hægt að halda áfram hvorki með hönnun né framkvæmdir meðan á þessu stendur.

Þess vegna ætla ég að spyrja hæstv. ráðherra um þessi mál og vonandi gefur hún greinargóð svör.