Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 18:33:09 (2110)

2002-12-04 18:33:09# 128. lþ. 46.15 fundur 341. mál: #A úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi GunnB
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[18:33]

Fyrirspyrjandi (Gunnar Birgisson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Ástandið eins og það er í dag er skelfilegt. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra: Hvað ef búið er að samþykkja deiliskipulag í einhverju bæjarfélagi og það síðan kært til úrskurðarnefndarinnar af einhverjum aðilum? Hvaða möguleika hefur þá viðkomandi sveitarfélag þar til úrskurður úrskurðarnefndar í skipulags- og byggingarmálum fæst? Hvað er hægt að gera? Mun ráðherra skrifa upp á deiliskipulagið áður en úrskurðurinn fellur eða hvað?

Eins og hæstv. ráðherra gat um er miklum fjölda mála ólokið. Þá er kannski önnur spurning: Hvenær má reikna með, eftir að fjölgað hefur verið um þennan eina lögfræðing, að nefndin verði búin að ná vopnum sínum, þ.e. hreinsa borðið? Ég veit um tilfelli þar sem aðilar hafa farið í framkvæmdir áður en úrskurður hefur legið fyrir og þar sem úrskurðurinn féll þeim ekki í hag þarf að mölva niður þær framkvæmdir sem ráðist hefur verið í. Þetta er býsna alvarlegt mál og ég held að það þurfi að auka enn frekar afköstin, þó að ég sé ekki talsmaður þess að bæta í opinberan rekstur. Þegar slíkar nefndir eru skipaðar mega þær a.m.k. ekki vera til trafala í byggingarframkvæmdum og öðru víðs vegar um landið.