Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 18:35:02 (2111)

2002-12-04 18:35:02# 128. lþ. 46.15 fundur 341. mál: #A úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[18:35]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hér komu fram tvær nýjar spurningar sem ekki var spurt í upphafi fyrirspurnarinnar. Hin fyrri var varðandi deiliskipulag, ef það væri kært og mikill dráttur á úrskurði, hvað geti þá ráðherrann gert, staðfest eða ekki. Ég treysti mér ekki til að kveða alveg upp úr um það án þess að skoða það mál betur. Ég mun koma svarinu á framfæri við hv. þm. kjósi hann svo án þess að það verði gert í þinginu. Einnig er hægt að leggja fram skriflega fyrirspurn varðandi þetta atriði sérstaklega.

Hér var einnig spurt hvenær búið yrði að ná niður halanum. Ég er ekki með nákvæmar upplýsingar um það hér en ég veit að úrskurðarnefndin hefur gert áætlun um hvernig hún ætli að ná niður halanum. En ég er ekki með upplýsingar um það á þessari stundu hvenær sú áætlun gerir ráð fyrir að halanum hafi verið eytt.

Það mikilvægasta í þessu máli, virðulegi forseti, er að það er búið að auka við starfslið úrskurðarnefndarinnar. Hún er því mun betur í stakk búin en áður til að ráða við þetta gífurlega stóra og viðkvæma verkefni sem hún hefur með höndum. Það er hins vegar hugsanlegt, ég get skotið því að, að starfsemi þessarar nefndar verði breytt í framtíðinni. Við erum að skoða það í tengslum við frv. um ný lög um mat á umhverfisáhrifum. Það er alveg hugsanlegt að menn endurskoði starfsemi úrskurðarnefndarinnar í tengslum við það og hugsanlega fær hún þá fleiri verkefni. Ef svo fer þyrfti að auka enn við starfsemi hennar, auka þar starfskraft. En ég er ekki með nákvæmar upplýsingar um þau atriði sem fram komu í seinni ræðu hv. þm.