Rafmagnseftirlit

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 18:37:51 (2112)

2002-12-04 18:37:51# 128. lþ. 46.17 fundur 378. mál: #A rafmagnseftirlit# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[18:37]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Sl. vetur lagði ég fram fyrirspurn um rafgirðingar og eftirlit með rekstri og uppsetningu þeirra. Í svari hæstv. iðnrh. kom fram að Löggildingarstofan hafði hvorki látið fara fram heildarúttekt á uppsetningu rafgirðinga í landinu né á einstökum svæðum. En á haustdögum árið 2000 hóf Löggildingarstofan átaksverkefni sem fólst í að kanna ástand raflagna í sveitabýlum á landinu, svo sem raflagna á bæjum, útihúsum, hlöðum, ástand jarðskauta, rafgirðinga og fleira. Það er verið að vinna úr gagnagrunninum en þegar er ljóst að víða eru miklar og alvarlegar brotalamir á öllum þessum sviðum. Þetta hefur m.a. komið fram hjá Löggildingarstofu en samkvæmt könnun sem gerð var á rúmlega 100 hesthúsum vítt og breitt um landið var raflögnum og rafbúnaði mjög ábótavant eða í 97% tilvika. Þar var jafnvel hættulegt ástand.

Herra forseti. Það hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni að eldsvoðar eru allt of tíðir og stórbrunar í íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði hafa verið óvenjumargir. Þó koma ekki fram í fjölmiðlum aðrir brunar en þeir þar sem kalla verður á slökkvilið og lögreglu. Löggildingarstofan skráir eingöngu þá bruna sem henni berast upplýsingar um en það er aðeins lítill hluti allra rafmagnsbruna sem verða.

Herra forseti. Ekki þarf að taka það fram að sem betur fer orsakast ekki allir brunar af rafmagni en allt of tíðir eru þeir eftir sem áður. Löggildingarstofan hefur markaða tekjustofna og það er ljóst að framlög til að reka stofuna hafa ekki dugað svo að hluti af eftirlitsgjaldi rafveitna sem á að nota til eftirlits og gjald af innfluttum rafföngum, sem á að nota til öryggismála, hefur verið nýtt til annarra hluta.

Herra forseti. Þetta er mjög alvarlegt mál og skýrir að hluta hvers vegna eftirlit og öryggismál eru vanrækt. Einnig er ljóst að eftirfylgni, þ.e. að fylgja málum eftir ef lagfæringa er þörf, er í algjöru lágmarki og ljóst er að öryggiseftirlit er veikast í gömlum húsum. Skoðunarstofur eru eingöngu hér á höfuðborgarsvæðinu og starfsmenn finnast ekki á landsbyggðinni. Eftirlitskerfið er því orðið mjög miðlægt og dýrt, svo lítið sem það er. Gagnrýnin beinist ekki að eftirlitsmönnunum heldur að vanmáttugu eftirlitskerfi.

Tryggingafélögin hafa boðað verulega hækkun á iðgjöldum vegna mikils fjárhagslegs tjóns þeirra af tíðum og stórum eldsvoðum. Því leyfi ég mér til að bera upp spurningar til hæstv. viðskrh.:

Mun ráðherra beita sér fyrir breytingum á lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga í ljósi þess hve bágborið rafmagnseftirlitið er í landinu?