Rafmagnseftirlit

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 18:50:05 (2116)

2002-12-04 18:50:05# 128. lþ. 46.17 fundur 378. mál: #A rafmagnseftirlit# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[18:50]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég hef kannski ekki verið nægilega sannfærandi áðan í svari mínu miðað við það sem hv. fyrirspyrjandi sagði áðan. En eitt erum við áreiðanlega sammála um, ég og hv. fyrirspyrjandi, að við viljum að eldsvoðum fækki. Það er ekki nokkur spurning.

Eins og kom fram í máli mínu áðan hefur það sýnt sig að u.þ.b. helmingur af eldsvoðum er vegna rangrar notkunar á rafmagnstækjum. Það segir okkur að fólk er því miður ekki nógu meðvitað um þau rafmagnstæki sem það notar dagsdaglega og þá eru það sérstaklega eldavélarnar sem þarna eiga í hlut.

Ég held því fram að þetta fyrirkomulag hafi gefist ágætlega og þeir aðilar sem sinna rafmagnsmálum hér á landi hafa lýst yfir ánægju sinni með þessa þróun og breytingu. Þar á meðal má nefna samtök innflytjenda raffanga, Félag löggiltra rafverktaka og Samband ísl. rafveitna sem hafa lýst því yfir. Það er í sjálfu sér ekkert um það að segja að hv. þm. hafi efasemdir eins og þeir tveir þingmenn sem hér töluðu. En þetta er það sem við höfum og ég hvet hv. þm. að kynna sér þá skýrslu sem gefin var út í sambandi við úttekt á málinu eftir að því var breytt en skýrslan segir að sú breyting hafi ekki haft slæm áhrif í för með sér heldur miklu frekar hitt.

Þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson talar um ,,hlutfallslega miklu dýrara`` þá veit ég ekki alveg hvað hann meinar með því. Ég tel að fjármununum sé betur varið með því fyrirkomulagi sem nú er viðhaft. Það er ákveðið traust sem þeim aðilum er sýnt sem vinna við raflagnir og bera ábyrgð á raflögnum og hins vegar er úrtak í sambandi við eftirlit.