Fjáraukalög 2002

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 10:43:55 (2125)

2002-12-05 10:43:55# 128. lþ. 47.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[10:43]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má öllum vera ljóst, sem þekkja til sölu jafnumfangsmikilla eigna og hagsmuna og um er að ræða þar sem Landssíminn og bankarnir eru, að nauðsynlegt er að þar fari fram gríðarlega mikil og vönduð vinna. Sú vinna snýr að sjálfsögðu ekki eingöngu að einstökum fundahöldum og þvargi um verð yfir samningaborð. Þar þarf að sjálfsögðu að gæta að fjármögnun, arðsemi, tryggingum, það þarf að skoða margvíslega möguleika sem ekki skila árangri þannig að þarna er mjög margþætt og flókin vinna sem þurfti að vinna á þessu ári. Því var það óhjákvæmilegt að mínu mati að verða við þeim beiðnum sem hér koma fram um breytingu á fjáraukalögunum.

Hvað varðar ónotaða peninga vegna Landssímasölunnar sem ekki varð af hef ég ekki kannað sérstaklega en það segir sig sjálft að þar þurfti að nýta gríðarlega mikið fjármagn enda þótt ekki kæmi til sölunnar, þ.e. vegna undirbúnings sölunnar þótt henni hefði ekki verið lokið. Ég lít svo á að það fé muni nýtast þegar Landssíminn verður seldur í fyllingu tímans.