Fjáraukalög 2002

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 10:45:22 (2126)

2002-12-05 10:45:22# 128. lþ. 47.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[10:45]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Menn gangast upp í ýmsu hér á Alþingi. Nú síðast virtist formaður fjárln. gangast sérstaklega upp í því að flytja ekki-ræður, ekki-framsöguræður um fjárlagafrv. eða fjáraukalagafrv. Ég gagnrýni þennan framgangsmáta. Ég tel að það sé lítilsvirðing við þingmenn sem eiga að greiða atkvæði um þessar tillögur á næsta sólarhring eða svo að nánast engar skýringar skuli veittar, hvorki í nál. né í þessari ekki-framsöguræðu formannsins, á mörg hundruð milljóna króna útgjöldum.

Gæluverkefnið hér er einkavæðingarnefndin sem kemur orðið árlega og pantar nokkur hundruð milljóna, óútskýrt meira og minna. Hefur jafnvel átt að halda því öllu leyndu, samanber deilurnar sem urðu hér síðast.

Hvað framhaldsskólana varðar liggur fyrir vandi sem sennilega mælist frekar í milljörðum en hundruðum milljóna. Það er ákaflega fátækleg útskýring á bak við þær 220 millj. sem þar eru lagðar fram.

Tökum Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri sem menn hafa mikið gagnrýnt að fái ekki sambærilega meðferð og t.d. Landspítalinn -- háskólasjúkrahús. Það eru miklar útskýringar gefnar á 50 millj. sem sletta á í Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri til að lina aðeins þjáningar þess. Hverjar eru útskýringarnar? Þar er sagt: 50 millj. kr. framlag vegna erfiðrar rekstrarstöðu á árinu.

Ætli við þingmenn hefðum nú ekki getað giskað á það hjálparlaust, að þar væru einhverjir erfiðleikar í rekstrinum úr því að veita þarf 50 milljónir. En hve mikill er vandinn? Hve langt gengur þetta upp í hann og af hverju stafar hann? Hvers konar frammistaða er þetta, herra forseti? Ég fer fram á að formaður fjárln. reyni að gera betur eða þá að einhver annar verði fenginn í djobbið.