Fjáraukalög 2002

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 10:47:19 (2127)

2002-12-05 10:47:19# 128. lþ. 47.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[10:47]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og öllum þingmönnum er kunnugt liggja skýringarnar fyrir í gögnum sem þingmenn hafa hjá sér. Enn fremur liggja fyrir skýringar hjá öllum þeim sem í fjárln. vinna, bæði í þeim gögnum sem hafa komið í umsóknum og skýringum gesta og umsækjenda. Ég bendi sérstaklega á það vegna þess sem hér er sagt um FSA, að fjárln. heimsótti Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og fékk fulltrúa þaðan sömuleiðis, a.m.k. einu sinni ef ekki tvisvar, til viðræðna við sig. Ítarlegar skýringar hafa legið fyrir nefndarmönnum og flokkurinn sem síðasti hv. ræðumaður talar fyrir hefur haft aðgang að þessum skjölum og getur væntanlega tekið þátt í umræðunni með málefnalegum hætti.

Hvað framhaldsskólana varðar þá er það rétt að það er komið mjög myndarlega til móts við framhaldsskólana með 220 millj. kr. framlagi á fjáraukalögum og 20 milljónum í fjárlögunum. Ég vænti þess að það góða framlag verði til að bæta rekstrarstöðuna þar.