Fjáraukalög 2002

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 10:48:45 (2128)

2002-12-05 10:48:45# 128. lþ. 47.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[10:48]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að fjárln. sjálf telur sig vita nokkurn veginn hvað hún er að gera. En nefndin á að koma þeim upplýsingum út og tryggja að þær séu aðgengilegar öllum þingmönnum og í sjálfu sér þjóðinni einnig. Fundir Alþingis fara fram í heyranda hljóði nema annað sé sérstaklega ákveðið. Það er sent út gegnum Ríkissjónvarpið frá þessum fundi. Halda menn að áhorfendur séu miklu nær um lokaafgreiðslu fjáraukalaga af þessari ekki-framsöguræðu formannsins?

Ég stend við þau orð mín að þetta er engin frammistaða. Það er vísað hér í nál. Hvað er í því? Þetta nál. er upp á tvær og hálfa blaðsíðu í þingskjalastærð. Hér er t.d. hálf setning um Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Hvað segir hún?

Það er ekki þannig að það eigi að miðla þessum upplýsingum á bak við tjöldin milli manna. Þetta á að liggja fyrir, annaðhvort í ítarlegri og vandaðri framsöguræðu formanns sem hefur lögskýringargildi ef þarf að finna út úr því seinna hvað stóð á bak við fjárveitingarnar eða þá í ítarlegu þingskjali.