Fjáraukalög 2002

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 10:55:45 (2134)

2002-12-05 10:55:45# 128. lþ. 47.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., Frsm. 1. minni hluta GE
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[10:55]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Gísli S. Einarsson):

Virðulegur forseti. Áður en ég geri grein fyrir áliti 1. minni hluta fjárln. er ástæða til að ítreka það sem hér var rætt, að þau gögn sem hv. fjárln. hefur beðið um frá ráðuneytunum, ekki bara minni hlutinn heldur og einstakir fulltrúar meiri hlutans, hafa ekki borist. Menn hafa ekki staðið sig lakar í að skila erindum við fjárlagavinnuna sl. átta ár. Það er sérstök ástæða til að tala um framhaldsskólana og líkanið sem á að nota við úthlutun fjármuna vegna þess að strax á fyrsta fundi fjárln. var gert að umtalsefni að nauðsynlegt væri að fjárln. færi nákvæmlega yfir fjárveitingar til framhaldsskólanna. Strax í upphafi þurftum við að fá útskýringu á þessu líkani sem notað er til fjárlagagerðar vegna framhaldsskólanna. Hún hefur enn ekki borist. Það er að koma í ljós að mismununin milli framhaldsskólanna er slík að það er óþolandi.

Það hefur líka komið í ljós að verið er að veikja byggðirnar með þessum aðgerðum. Það er verið að klippa af nánast allt verknám úti á landi og þvinga þá sem vilja komast í verknámi til þess að fara til Reykjavíkur. Þetta er aðfinnsluvert og ég ætla ekki að hafa stærri orð um þau mál en ég vísa til nefndarálita 1. minni hluta fjárln. sl. þrjú ár þar sem þessi mál hafa verið rakin. Það er beinlínis ráðist gegn byggðunum með þessari skólastefnu.

Virðulegur forseti. Ég geri nú grein fyrir nál. 1. minni hluta fjárln. um fjáraukalög 2002:

Fjárlög yfirstandandi árs gerðu ráð fyrir að útgjöld næmu 239,4 milljörðum kr. og tekjur 257,9 milljörðum kr. Tekjujöfnuður var því áætlaður 18,5 milljarðar kr. Tekjujöfnuður stendur fyrir það sem til afgangs átti að verða. En nú liggur fyrir, eftir alla yfirferð fjárln. ásamt því sem hefur komið sem tillögur frá ráðuneytum, að útgjöld aukast um 11,9 milljarða kr. Það er ósköp eðlilegt að fólk velti fyrir sér: Bíðum nú við, hve há er þessi upphæð, 11,9 milljarðar? Það er ámóta og fyrir fimm skipum eins og Ingunni á Akranesi, svo ég taki eitthvert viðmið, nótaskip af fullkomnustu gerð. Útgjöld eru 11,9 milljarðar kr. umfram fjárlög og er áætlað að tekjurnar nemi 268,2 milljörðum kr., 10,3 milljörðum kr. hærri fjárhæð en gert var ráð fyrir. Tekjujöfnuður er því áætlaður um 16,9 milljarðar kr.

[11:00]

Af þeim tekjujöfnuði er gert ráð fyrir að sala eigna skili 15,2 milljörðum. Óhætt er að hafa orð á því að þó að búið sé að selja báða ríkisbankana þá hefur enn ekki verið gengið formlega frá þeim málum. Því ríkir enn óvissa um niðurstöðu ársins.

Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2002 var áætlað að ríkissjóður tæki á árinu löng lán sem næmu 15 milljörðum kr. Nú er ljóst að lántökur verða mun meiri eða sem nemur 41,2 milljörðum kr. á móti 15 milljörðum sem áætlað var. Þessu til viðbótar er nú gert ráð fyrir að afborganir lána verði 6,6 milljörðum kr. lægri en áætlað var. Samkvæmt fjárlögum var gert ráð fyrir að hreinn lánsfjárjöfnuður yrði hagstæður um 38,3 milljarða kr. en nú er áætlað að hann verði einungis hagstæður um 3,2 milljarða kr.

Ástæða er til að ítreka þessar tölur vegna þess að þarna er svo gífurlegur mismunur á áætlun og niðurstöðu sem sýnir og staðfestir að það sem 1. minni hluti fjárln., fulltrúar Samfylkingarinnar, bentu ítrekað á við fjárlagagerðina á síðasta ári, var rétt en það sem hæstv. fjmrh. hélt fram var rangt. Það var einfaldlega rangt. Gert var ráð fyrir að hreinn lánsfjárjöfnuður yrði hagstæður um 38,3 milljarða kr. en niðurstaðan er sú að hann er hagstæður um 3,2 milljarða kr. Þá er gert ráð fyrir sölu hlutabréfa og eignarhluta fyrir 20,9 milljarða kr. en eins og áður segir ríkir nokkur óvissa um hver niðurstaðan verður varðandi þessa fyrirhuguðu sölu.

Enn er ástæða til að ræða um tilgang fjáraukalaga og fjármálastjórn ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. En samt skal á það minnt að í byrjun árs 2001 gaf fjmrn. út reglugerð um framkvæmd fjárlaga og ábyrgð á fjárreiðum ríkisstofnana í A-hluta. Markmið reglugerðarinnar er að stuðla að skilvirkum rekstri ráðuneyta og stofnana þannig að hann verði innan fjárheimilda. Í 11. gr. reglugerðarinnar er fjallað um ófyrirséða greiðsluskyldu ráðuneyta og stofnana. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Falli greiðsluskylda á ríkissjóð samkvæmt þessari grein leitar fjármálaráðherra heimildar Alþingis til greiðslu útgjaldanna í samræmi við nánari fyrirmæli 33. gr., 34. gr. og 44. gr. laga nr. 88/1997.``

Í 33. gr. fjárreiðulaganna er kveðið á um að fjármálaráðherra sé skylt að gera fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir slíkum ófyrirséðum greiðslum strax og ákvörðun hefur verið tekin um þær og leita heimilda til þeirra í frumvarpi til fjáraukalaga. Ljóst er að góður ásetningur stjórnvalda um vandaða og skilvirka fjármálastjórn er meira í orði en á borði og í raun aðeins í orði en ekki á borði.

Við 3. umr. um frumvarpið leggur meiri hlutinn til útgjaldahækkanir að upphæð 1,3 milljarðar kr. Enn á ný skýtur upp kollinum einkavæðingarnefnd ríkisins sem nú vill fá 220 millj. kr. fyrir kostnað við sölu á hlutabréfum ríkisins. Mönnum er það sjálfsagt í fersku minni þegar óskað var eftir 300 millj. kr. aukafjárveitingu í fjáraukalögum fyrir árið 2001 fyrir svipaðan kostnað. Þá fengust engar skýringar á væntanlegum útgjöldum, ekki frekar en nú. Það er sérkennilegt að við gerð fjárlaga undanfarin ár hefur aldrei verið gert ráð fyrir neinum umtalsverðum kostnaði við sölu á hlutabréfum í eigu ríkisins þó svo að tekjur af sölunni hafi verið tíundaðar skilmerkilega á gjaldahlið. Þetta er glöggt dæmi um sérkennileg vinnubrögð við gerð fjárlaga og fjáraukalaga. Þetta eru ekki ófyrirséð útgjöld og eiga því ekki heima í fjáraukalögum.

Virðulegi forseti. Nú er einnig lagt til að liðurinn Framhaldsskólar, óskipt fái 220 millj. kr. vegna ,,ófyrirséðrar nemendafjölgunar í haust`` eins og segir í skýringum með tillögunni. Kemur fram að gert er ráð fyrir að nemendur verði 15.768 í ár en áætlað var að þeir yrðu 15.224. Við 2. umr. um fjáraukalög fyrir hálfum mánuði var óskað eftir 40 millj. kr. aukafjárveitingu ,,vegna óvissu um fjölda nemenda í framhaldsskólum`` eins og segir í skýringum. Var það talið samsvara 80 heilsársnemendum. Eftir endurtalningu eru þeir hins vegar 464 fleiri. Virðulegur forseti. Eru þetta trúverðug vinnubrögð? 1. minni hluti gerir ekki athugasemdir við að aukið fé skuli veitt til menntamála en ástæða er til að gera athugasemdir við stjórn menntamálaráðuneytisins á fjármálum skólanna. Ljóst er að rekstrarforsendur margra skóla eru brostnar og skiptir þá engu hverjum er um að kenna. Á sama tíma eru umtalsverðar fjárhæðir ónotaðar á safnliðum menntamálaráðuneytisins. Þetta varðar að því er ég best veit ónotaðar, uppsafnaðar fjárheimildir sem nema hundruðum millj. kr. á sama tíma og fjölmargir framhaldsskólar eru í greiðslustöðvun. Ráðuneytið getur ekki endalaust skýlt sér á bak við eitthvert reiknilíkan sem augljóslega hefur ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt. Það er óþolandi að nemendum og starfsfólki einstakra skóla sé haldið í gíslingu vegna þessa. Má benda á að áðurnefnd reglugerð um framkvæmd fjárlaga var sett til að takast á við slík vandamál en augljóslega er ekki vilji til að beita henni í þessu sambandi.

Lagt er til 300 millj. kr. framlag vegna launa- og verðlagsmála til að mæta kostnaði við úrskurð kjaranefndar um laun heilsugæslulækna sem kveðið var á um 15. október sl. Fram kemur í skýringum að enn er töluverð óvissa um kostnaðaráhrif úrskurðarins þar sem útreikningar eru enn þá í vinnslu. Sérkennilegt er að ekki skuli enn vera búið að reikna út heildaráhrif þess úrskurðar, m.a. vegna þess að hann hefur einnig veruleg áhrif á fjárlög næsta árs. Eðlilegt er að spyrja hvort ráðuneytið sé ekki í stakk búið til að reikna út slíka samninga, eða er samningurinn of flókinn? Hvort sem svarið er þá er ljóst að þetta er óviðunandi ástand þegar kemur að afgreiðslu fjáraukalaga og fjárlaga.

Á tekjuhlið fjárlaga er gert ráð fyrir að tekjur aukist um 4,6 milljarða kr. Þar vegur þyngst hækkun á tekjuskatti lögaðila vegna endurmats í kjölfar álagningar í október. Það vantaði inn peninga og þá var ákveðið að áætla að þar kæmu 3 milljarðar til viðbótar. Aðrar veigamiklar breytingar eru hækkun vaxtatekna af skatttekjum um 1 milljarð kr. og 800 millj. kr. aukinn hagnaður vegna sölu eigna. Þessi 1 milljarður sem verið er að ræða um vegna vaxtatekna af skatttekjum, hvað er um að ræða þar, virðulegur forseti? Verið er að ræða um aukin vanskil og vegna aukinna vanskila eru vaxtatekjur ríkissjóðs að aukast um 1 milljarð.

Virðulegi forseti. Fyrsti minni hluti ítrekar þá skoðun sína, sem birst hefur í fyrri nefndarálitum um frumvarp til fjáraukalaga, að óþolandi sé að stjórnvöld fari ekki eftir þeim lögum sem Alþingi hefur sett um fjárreiður ríkisins og að þau skuli ekki heldur sjá sóma sinn í að fara eftir reglum sem þau hafa sjálf sett um framkvæmd fjárlaga.

Virðulegi forseti. Undir nál. rita ásamt mér hv. þm. Einar Már Sigurðarson og Margrét Frímannsdóttir.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir áliti 1. minni hluta fjárln. með litlum aukaskýringum um leið og ég flutti álitið. Um er að ræða álit Samfylkingarinnar á fjáraukalagafrv. fyrir árið 2002. Við höfum í höfuðatriðum fylgt þeirri línu sem við höfum unnið eftir, þ.e. að gagnrýna að Alþingi líði ráðuneytum að brjóta fjárreiðulög ár eftir ár. Þessi fullyrðing er ekki ný hjá mér. Ég hef sett hana fram áður, að Alþingi líður það að lög séu brotin. Rökstuðninginn fyrir orðum mínum má finna í endurteknum ábendingum Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning síðustu ára.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki eitthvað sem undirritaður er að grípa úr lausu lofti. Þetta er tekið úr ábendingum Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning síðustu ára þar sem segir að verið sé að brjóta lög.

Sú mismunun sem er að finna í aðgerðum til að rétta af hallarekstur hinna mörgu stofnana ríkisins er einnig óþolandi. Einstaka stofnanir virðast ekki njóta náðar vegna fjárhagsvanda og engu líkara er en að menn séu að tyfta einhverja til hlýðni. Sumum er gert kleift að halda sig innan ramma fjárlaga en svo eru aðrar stofnanir ekki þóknanlegar. Þær eru tyftaðar og sitja jafnvel við það í dag, eins og fjöldi framhaldsskóla, að vera í greiðslustöðvun. Þetta er glöggt dæmi eins og ég sagði áðan að sumir framhaldsskólanna eru sífellt neyddir til að skera meira og meira niður af námsframboði sem leiðir til veikari stöðu skólanna. Það veikir byggðirnar og er í raun aðgerð til að brjóta niður frumkvæði og atorku sem skapast af sérstöðu hvers kyns fagnáms í hinum mismunandi byggðum. Þetta hygg ég að menn hafi ekki skoðað.

Það er ákaflega mismunandi hvernig námið er framkvæmt og það dregur dám af því hvers konar starfsemi fer fram í hinum mismunandi byggðum. Nú á að sópa öllu saman á Reykjavíkursvæðið, einhæf og flöt kennsla sem er mjög ólík þeirri sem býðst í hinum dreifðari byggðum. Þar eru menn oft og tíðum mjög nærri vettvangi. Þar er farið með nemendur niður í skip, í frystihúsin og á vettvang á verkstæðin. Nemendur komast í starfskynningar í nánu sambandi við þau raunverulegu störf sem eru í gangi og það er á þann hátt sem sérstaða er mjög mikil varðandi framhaldskennslu eða framhaldsnám og iðngreinanám úti á landi.

Síðan má koma að öðru efni sem er takmörkun á heimavist fyrir nemendur úti á landi. Það er í raun liður í aðgerð til að veikja landsbyggðaskólana, að ekki er til húsnæði í heimavist fyrir nemendur sem sækja skólana. Nánast alls staðar er skortur á vistrými, heimavist fyrir nemendur sem leita síðan eftir leiguhúsnæði einhvers staðar í þeim bæjarfélögunum þar sem framhaldsskólarnir eru, en oft er það án árangurs.

[11:15]

Það má í rauninni segja það sama um sveltistefnuna gagnvart Háskóla Íslands. Þar er fjárvöntun ekki mætt vegna samninga ríkisins sjálfs, fjárvöntun sem ekki hefur verið deilt um og nemur 914 millj. kr. Þar af eru 176 millj. vegna fjölgunar nemenda en 740 millj. kr. rekstrarvandi. Það er verið að fresta vandanum til fjárlagagerðar næsta árs. Um leið er verið að þvinga skólann til að draga úr námsframboði og neyða fram tillögur um skólagjöld, nemendagjöld. Þetta er sú aðgerð sem í gangi er. Þetta er svo auðséð stefna og auðskilin að það skilur hana hvert einasta mannsbarn ef málið er skoðað.

Virðulegur forseti. Þetta er ekki falleg viðurkenning til handa fyrrv. menntmrh., núv. hv. þm. Birni Bjarnasyni, um viðskilnað. Það sem ég hef hér rakið er einkunn eða viðurkenning fyrir viðskilnaðinn í menntmrn. þegar hv. þm. Björn Bjarnason fór í borgarmálefnin.

Ég get dregið fram önnur dæmi, virðulegur forseti. Ef menn vilja líta á hvað verið er að gera gagnvart Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri er sú stofnun skilin eftir með óuppgerðan halla sem nemur 125 millj. kr. Hér er sannarlega verið að brjóta lög. Hér er um fyrirséða fjárvöntun að ræða og óumdeilda. Ég undirstrika, óumdeilda. Vandinn er viðurkenndur. En menn setja þessa upphæð sem skuld á stofnunina gagnvart ríkissjóði án skýringa og án tilraunar til að setja fram rök fyrir aðgerðinni.

Þær tillögur sem Samfylkingin hefur sett fram í þessum málum þrjú ár í röð eru bæði raunhæfar gagnvart tekjuhlið fjárlaga og standast að fullu fjárreiðulög. Það er í raun eins og að berja hausnum við steininn að reyna að fá hæstv. ríkisstjórn til að taka af raunsæi á þessum málum. Ég vona að landsmönnum skiljist að það er nauðsyn að losa hæstv. ríkisstjórn undan því verkefni sem hún getur ekki leyst, þ.e. að hafa stjórn á fjármálum og rekstri stofnana, hinna ýmsu ráðuneyta. Það ber því að setja núverandi ríkisstjórn af í komandi alþingiskosningum.

Virðulegur forseti. Það er enn ástæða til að rifja upp fyrir hv. alþingismönnum einkenni og grundvallarreglur íslenskrar stjórnskipunar, stjórnarskrána, lýðveldisformið, þrískiptingu ríkisvaldsins, þingræðið, lýðræðið, sjálfsákvörðunarrétt einstaklinganna og mannréttindaverndina. Þegar það er farið að skjóta rótum í huga manns, virðulegur forseti, að þessi grunnatriði séu ekki virt er nauðsyn að fara yfir þessa hluti. Þegar það er farið að skjóta rótum í huga manna að hér á Íslandi ríki frekar ráðherraræði en þingræði er orðin nauðsyn að spyrna við fótum. Það má einnig velta fyrir sér í þessu sambandi ráðherraábyrgð. Ráðherraábyrgð, hvað er það? Ég tel að margir hafi þá skoðun að hæstv. ráðherrar sæti ekki nokkurri einustu ábyrgð gagnvart gjörðum sínum, a.m.k. ef við lítum til annarra landa eftir samanburði. Evrópskir ráðherrar hafa orðið að sæta ábyrgð vegna misnotkunar á greiðslukorti embættisins við kaup á Toblerone-súkkulaði. Í Belgíu sögðu ráðherrar af sér eftir strok fanga og svo má áfram telja. Á Íslandi gegnir öðru máli. Hér á landi eru mörg dæmi sem unnt er að tilnefna sambærileg eða mun alvarlegri sem sýnir mismun á hugsunarhætti og viðhorfi til ábyrgðar.

Hvenær, virðulegur forseti, hefur verið skipuð þingmannanefnd til að rannsaka mikilvæg mál? Ekki sl. 47 ár. Ég tel t.d., virðulegur forseti, að það hefði verið ástæða til að skipa rannsóknarnefnd þingmanna í Landssímamálinu og í rauninni fleiri málum til að athuga hagsmunaárekstra, fjárfestingarmistök og í rauninni ýmislegt annað.

Ég hef í hverri ræðu minni um fjárlög síðastliðin ár rakið hvernig ég tel að fjárreiðulög og í raun fjárlög séu brotin. Ég ætla því aðeins að minna á það í þessari umfjöllun með því að vísa til þess að það er frekar orðin regla en undantekning að stofnanir fari fram úr fjárveitingum. Þannig tel ég að fjárlög séu misnotuð hér.

Virðulegur forseti. Við það mál sem ég hef gert að umtalsefni í lok ræðu minnar má mörgu bæta. Meðan ég er hér við störf mun ég sífellt minna á þau veigamiklu atriði að hafa stjórnarskrá og lög sem Alþingi sjálft hefur sett í huga með virðingu fyrir þeim.

Virðulegur forseti. Hv. formaður fjárln. virtist ekki vera með á þeim atriðum sem ég tíndi til varðandi já- og nei-svör mín um hvað á heima og hvað ekki í fjáraukalögum. Ég hef merkt þennan lista með já og nei og síðan athugasemdum um þau tilefni sem hæstv. ríkisstjórn hefur hentað að draga fram. Ég lýsi því hér með yfir að ég mun senda hv. formanni fjárln. í tölvupósti athugasemdir mínar um þá liði sem eru miklu fleiri í fjáraukalögum en eiga þar heima, þeir áttu heima við fjárlagagerðina á síðasta ári. Þannig lýk ég, virðulegur forseti, ræðu minni. Mér kom það undarlega fyrir sjónir að hv. formaður fjárln. hafði ekki velt þessu fyrir sér, þessu sama og við erum búnir að ræða um a.m.k. sl. 4 eða 5 ár, hvenær tilefni sé til að setja upphæðir inn í fjáraukalög og hvenær í fjárlög.