Fjáraukalög 2002

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 11:39:41 (2136)

2002-12-05 11:39:41# 128. lþ. 47.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[11:39]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég ætla að koma á framfæri sjónarmiðum við fáein atriði frv. sem ég hafði hugsað mér að kæmu fram við 2. umr. málsins sem fram fór í síðustu viku, en þá var ég staddur erlendis á vegum Alþingis þannig að ég átti ekki kost á því og bæti þá úr því hér við 3. umr. málsins. Ég vænti þess, herra forseti, að bæði fjmrh. og formaður fjárln. séu hér innan seilingar og hlýði á umræðu sem fram fer um þetta þingmál.

Ég vil víkja að fjárveitingum undir liðnum Iðnaðarráðuneyti, sem er að finna á bls. 38 og 39 í frv. til fjáraukalaga. Þar er fyrst sem ég vil nefna að lagt er til að veita 107,1 millj. í átak til atvinnusköpunar, sem er samkvæmt skýringum þannig til komið að um er að ræða 50% af söluverðmæti á eignarhlut ríkisins í Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki, eða 105 millj. kr., og rennur helmingurinn í ríkissjóð, 105 millj., en hinn helmingurinn rennur til samgöngu- og atvinnubóta í sveitarfélögum í grennd við Sauðárkrók. Þetta er í samræmi við frv. sem hér var samþykkt á vorþingi og varð að lögum þannig að fyrir liggur að þingið hafi ákveðið að fara þá leið varðandi ráðstöfun á hluta af hagnaði ríkissjóðs af sölu þessara hlutabréfa.

Ég vil segja um þetta mál að þótt fordæmi séu fyrir því að ríkissjóður ákveði að verja hluta af hagnaði af sölu eigna sinna á tilteknum stað til framkvæmda á þeim stað --- og þar á ég við í Mývatnssveit --- þá tel ég ekki heppilegt að Alþingi fikri sig inn á þessa braut meira en orðið er. Ég vil segja, herra forseti, að mér finnst afar óheppilegt ef menn ætla að fikra sig lengra á þessu sviði. Það er auðvitað óeðlilegt sem almenn stefna að andvirði af sölu eigna ríkissjóðs sé varið sérstaklega til framkvæmda eða verkefna á þeim stað sem eignin stendur sem seld er. Ég er ekki að segja þetta vegna þess að ég telji að ekki hafi verið rétt að ráðast í einhverjar tilteknar samgönguframkvæmdir í Skagafirði. En ég tel það reyndar ekki rétt að tengja saman sölu hlutabréfa ríkissjóðs í steinullinni og samgönguframkvæmdir þar, ekkert fremur en ég tel það rétt að tengja saman hagnað af sölu Landsbankans í Reykjavík, sem hann fyrst og fremst er, og samgönguframkvæmdir í Reykjavík. Ég treysti mér ekki til að styðja það ef menn ætluðu sér að fá samstöðu um slíka tillögu, að andvirði af hagnaði af sölu ríkisbankanna yrði sérstaklega varið til tilgreindra verkefna á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna nefni ég þetta til að undirstrika það að þó að ég hafi stutt þetta mál á sínum tíma og standi við það þá set ég takmörk hvað ég er tilbúinn til að ganga langt í þessum efnum.

Í öðru lagi vil ég nefna lið sem er Byggðaáætlun. Þar er lagt til að verja 200 millj. kr. til byggðaáætlunar og í skýringum með frv. segir, með leyfi forseta:

,,Farið er fram á að 200 millj. kr. framlag vegna þátttöku í eignarhaldsfélögum á landsbyggðinni verði millifært yfir á byggðaáætlun sem er nýr fjárlagaliður vegna byggðaáætlunar er tók gildi í byrjun árs og gildir út árið 2005. Í hinni nýju áætlun er ekki gert ráð fyrir framlögum til eignarhaldsfélaga á landsbyggðinni eins og var í fyrri áætlun.``

Um þetta er allnokkuð að segja, herra forseti. Ég vil fyrst byrja á byggðaáætluninni sjálfri. Í textanum segir að þessi liður eigi að fara til þess að uppfylla nýja byggðaáætlun og reyndar er það skýrt nánar í fjárlagafrv. fyrir næsta ár, en þar segir að fjármununum verði varið til að sinna verkefnum sem eru tilgreind í þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002--2005.

Þarna held ég að sé rétt að fara aðeins yfir málin þannig að ekki leiki neinn vafi á því hvað menn ætla að gera við þessa peninga. Sú byggðaðáætlun sem samþykkt var hér á vordögum var einungis almenn stefnumarkmið í fimm atriðum. Tillögunni fylgdu tillögur um aðgerðir en þær voru ekki bornar upp og eru ekki samþykktar á Alþingi. Þess vegna er rétt að undirstrika það að ekki liggur fyrir af hálfu Alþingis nein samþykkt um tilgreind verkefni sem eigi að ráðast í samkvæmt byggðaáætlun, einungis almenn fimm stefnuatriði eða markmið sem menn settu sér.

[11:45]

Í öðru lagi liggur fyrir að þegar tillagan var afgreidd úr iðnn. þá kemur fram í áliti meiri hluta iðnn. að nefndin geri aðrar tillögur til viðbótar við þær sem ríkisstjórnin gerði og hún breytir sumum tillögum sem ríkisstjórnin gerir. Þar á ég einkum við tvær, annars vegar sem stöðu og hlutverk Byggðastofnunar og hins vegar um atvinnuþróunarfélög og eignarhaldsfélög.

Ég vil rifja það upp, herra forseti, að í nál. meiri hluta iðnn. segir, með leyfi forseta:

,,Nefndin telur jafnframt mikilvægt að styrkja varanlega rekstur atvinnuþróunarfélaganna ásamt eignarhaldsfélögum og atvinnuþróunarsjóðum.``

Það liggur því fyrir að niðurstaðan innan stjórnarliðsins um afgreiðslu á tillögum ríkisstjórnarinnar um stefnu í byggðamálum er alveg skýr þegar menn lesa álit meiri hluta iðnn. Og ég spyr: Er það eins og skilja má á textanum fyrir fjárlagafrv. 2003 einungis ætlunin að framfylgja þeim tillögum sem ríkisstjórnin gerði? (Gripið fram í.) Ja, það má skilja það, herra forseti, ég tek undir það frammíkall.

Þess vegna undirstrika ég að niðurstaða meiri hluta iðnn. var ekki algerlega sú. Það ber, ef menn ætla að taka þennan tillögupakka sem liggur fyrir eftir umfjöllun í iðnn., að taka með þær tillögur sem komu fram til viðbótar frá meiri hluta iðnn. og líka að taka mið af þeim tillögum sem var breytt í meðförum nefndarinnar.

Í þriðja lagi, herra forseti, segir í skýringum að ekki sé gert ráð fyrir framlögum til eignarhaldsfélaga á landsbyggðinni í hinni nýju áætlun. Ég vil gera athugasemdir við það, herra forseti, því eins og ég las upp áðan var það niðurstaðan að menn vildu og náðu samkomulagi um það að styrkja varanlega eignarhaldsfélögin og framlög til þeirra. Þess vegna er ég ekki sammála því sem fram kemur í fjárlagafrv. að fella niður framlög til eignarhaldsfélaganna fyrir árið 2002. Ég tel að það sé ekki í samræmi við þá niðurstöðu sem málið fékk í meðförum Alþingis.

Ég hlýt að minna á þetta, herra forseti, vegna þess að það skiptir auðvitað máli að ríkisstjórnin framfylgi því sem stjórnarflokkarnir ná samkomulagi um en geri ekki á því kúvendingu þannig að það sem menn hafa samþykkt er framkvæmt á allt annan hátt. Það er hlutur sem ekki er gott að una við, herra forseti, og ekki ástæða til að láta liggja í láginni.

Í framhaldi af afgreiðslu Alþingis á hinum almennu stefnuatriðum í byggðaáætlun í samræmi við nál. sem ég las upp úr áðan, skrifaði hæstv. iðnrh. til Byggðastofnunar 10. júní sl. eftirfarandi bréf, með leyfi forseta:

,,Eins og kunnugt er samþykkti Alþingi nýja byggðaáætlun á vorþingi. Í hinni nýju áætlun er ekki gert ráð fyrir framlögum til eignarhaldsfélaga á landsbyggðinni eins og var í eldri áætlun. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2002 er tekið fram um framlög til Byggðastofnunar: ,,Framangreind framlög miðast við núverandi byggðaáætlun en unnið er að nýrri byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005, sem lögð verður fyrir Alþingi á haustþingi komanda. Gert er ráð fyrir að framlög breytist miðað við breyttar áherslur áætlunarinnar.``

Iðnaðarráðherra hefur í samráði við fjármálaráðherra ákveðið að nýta þær 200 millj. kr. sem eru í fjárlögum yfirstandandi árs ætlaðar til þátttöku Byggðastofnunar í eignarhaldsfélögum á landsbyggðinni, til verkefna samkvæmt nýrri byggðaáætlun, sem nauðsynlegt er að ráðist verði í á þessu ári. Í fjáraukalögum fyrir árið 2002 verður því lagt til að framangreindir fjármunir verði færðir undir nýtt viðfangsefni í fjárlögum. Í ljósi þessarar ákvörðunar er þeim tilmælum beint til Byggðastofnunar að stofnunin skuldbindi ekki umræddar fjárveitingar svo þær geti orðið til ráðstöfunar í samræmi við hina nýja byggðaáætlun.``

Ég spyr, herra forseti, sjálfan mig og bið hæstv. fjmrh. að skýra það hér fyrir þingheimi með hvaða rökum hann telur sig geta látið það vera að framfylgja fjárlögum eða jafnvel að gera breytingar á fjárlögum sem eru lög sem Alþingi hefur samþykkt. Ég held að nauðsynlegt sé að Alþingi fái rökstuðning ráðherra fyrir þessari breytingu. Með hvaða rökum getur hæstv. fjmrh. ákveðið að breyta fjárlögum þegar fyrir liggur að rökstuðningurinn, sem er að samþykkt hafi verið ný byggðaáætlun, felur ekki í sér það sem ætlað er? Þvert á móti liggur fyrir pólitískur vilji til þess að viðhalda framlögum til eignarhaldsfélaga.

Það er mjög bagalegt, herra forseti, því þessi framlög hafa runnið til allra svæða landsins til atvinnuuppbyggingar og það er verið að taka þessa peninga úr því verkefni. Það munar um það í atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni, sérstaklega á veikum svæðum landsins.

Það er líka hlutur sem mér finnst þurfa að fá skýringar við hvers vegna verkefnið er tekið af Byggðastofnun sem hafði það verkefni að útdeila þessu fé, finna samstarfsaðila til að útdeila þessu fé og setja á fót annan aðila hinum megin við Tröllaskaga til þess að vinna sams konar verkefni undir öðru nafni. Það er ekki í samræmi við það álit sem menn komust að í vor um stöðu Byggðastofnunar. Ég hlýt að spyrja: Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin telur rétt að færa þetta verkefni frá Skagafirði yfir í Eyjafjörð? Ég kannast ekki við að það hafi verið borið undir mig eða aðra í þingflokknum hvort við samþykktum þær breytingar og vil þess vegna ekki að menn haldi að þær séu gerðar með mínum stuðningi, því að það eru þær ekki.

Ég hef ekkert á móti því að menn setji á fót stofnun í Eyjafirði til að vinna að tilteknum verkefnum en ég hef nokkuð við það að athuga ef menn framkvæma hlutina með þeim hætti að veikja Byggðastofnun, taka verkefnið af henni og færa það öðrum aðila. Þá vil ég fá skýringar á málinu áður en málið er útrætt.

Herra forseti. Ég hef þá lokið við að koma á framfæri þeim athugasemdum sem ég vildi gera þinginu grein fyrir um þessi atriði í frv.