Fjáraukalög 2002

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 12:02:54 (2144)

2002-12-05 12:02:54# 128. lþ. 47.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[12:02]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Nálgun hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar varðandi fjáraukalagafrv. sem hér er til meðhöndlunar er áhugaverð. Við urðum auðvitað vör við það í 1. umr. um þetta frv. Það voru misjafnar áherslur, sérstaklega varðandi þann lið sem heyrir undir Byggðastofnun og tengist eignarhaldsfélögunum.

Það er athyglisvert sem fram kemur hjá þingmanninum, að hann lítur svo á að álit meiri hluta iðnn. sé ígildi samþykktar á Alþingi. Væntanlega er það byggt á því að slíkt samkomulag hafi verið á milli ríkisstjórnarflokkanna. Það er hins vegar alveg augljóst mál að ríkisstjórnin lítur ekki þannig á hlutina. Þannig er ríkisstjórnin að taka undir varnaðarorð ýmissa í umræðunni um byggðaáætlunina, að því miður sé þetta plagg ekki með þeim hætti að það væri sami styrkur af og stundum áður þegar byggðaáætlanir hafa verið samþykktar. Þess vegna vil ég spyrja hv. þm. hvort það sé nú að koma á daginn að ekki hafi dugað að semja á bak við tjöldin eins og hv. þm. telur sig hafa gert. Eða telur hv. þm. að þar sé um að ræða svik einhvers hæstv. ráðherra? Þá tel ég eðlilegt, herra forseti, að hv. þm. upplýsi okkur um hvort hann telji sökina meiri hjá hæstv. fjmrh. eða hæstv. iðnrh.