Fjáraukalög 2002

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 12:05:30 (2146)

2002-12-05 12:05:30# 128. lþ. 47.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[12:05]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Miðað við orðin sem hv. þm. lætur falla er það klárt, enda þekkir hann ekki annað, að þetta er samþykkt í þingflokki Framsfl. En það er auðvitað óhjákvæmilegt að spyrja hv. þm. að því hvort hann hafi ekki fréttir af því hvaða meðhöndlun þetta álit fékk í þingflokki Sjálfstfl. Var þessi samþykkt þingflokks Framsfl. í takt við samþykkt þingflokks Sjálfstfl.? Getum við þannig litið svo á að þetta hafi verið samþykkt af báðum stjórnarflokkunum eða eingöngu samþykkt Framsfl. og þess vegna séu átök stjórnarflokkanna að koma fram í þessu máli?

Herra forseti. Eitt að lokum. Það varðar eignarhaldsfélögin. Ég vil spyrja hv. þm. að því hvert álit hans sé á því hvernig störf eignarhaldsfélaganna hafi gengið í landshlutunum. Ég er þeirrar skoðunar að þar hafi býsna vel til tekis. En því miður er þetta dæmi um það að þegar eitthvað fer að ganga varðandi byggðamálin virðist þessi ríkisstjórn hlaupa frá verkinu, breyta til og gera einhverjar nýjar tilraunir en byggir ekki á því sem þó hefur vel tekist.