Fjáraukalög 2002

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 12:10:02 (2149)

2002-12-05 12:10:02# 128. lþ. 47.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[12:10]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Nú lýkur senn þessari umræðu um fjáraukalög og þingið tekur til við að ræða fjárlögin fyrir næsta ár. Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um fjáraukalögin. Hv. þm. Jón Bjarnason, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í fjárln., hefur farið ítarlega yfir afstöðu okkar til fjáraukalaganna en þó ætla ég að drepa á nokkur atriði.

Í fyrsta lagi ætla ég að vekja athygli á því, herra forseti, að hér hafa ráðherrar í ríkisstjórn orðið fyrir mikilli og harðri gagnrýni. Gagnrýni hefur verið beint að hæstv. forsrh. og hæstv. iðn.- og viðskrh. Hörð gagnrýni hefur komið fram á þessa tvo ráðherra og reyndar fleiri, þar á meðal frá formanni þingflokks Framsfl. Hvorugur þessara ráðherra lætur svo lítið að vera viðstaddur þessa umræðu og svara fyrir sig, svara þeirri gagnrýni sem fram kemur á þeirra störf. Ég vil að þetta komi fram án þess að ég geri kröfu um að þeir verði kallaðir til umræðunnar. Ég geri ráð fyrir að þeir verði hér síðar í dag þegar þingið ræðir fjárlögin við 3. umr.

Það er fátt sem kemur á óvart við fjáraukalögin að þessu sinni. Þar eru fastir liðir eins og venjulega. Ríkisstjórnin vinnur störf sín með handarbakinu. Þetta eru sömu handarbakavinnubrögð og við höfum fengið að kynnast á undanförnum árum. Fyrsta atriðið sem ég ætla að víkja að eru einmitt vinnubrögðin.

Megnið af þeim fjárútlátum sem fjáraukalagafrv. kveður á um mátti sjá fyrir við gerð fjárlaga fyrir ári. Á þetta benti fulltrúi okkar, hv. þm. Jón Bjarnason, rækilega á þeim tíma. Hann áréttar það sjónarmið í framhaldsnál. sínu núna fyrir þessa umræðu. Þá bendir hann á að ákveðnar fjárveitingar í frv. séu þess eðlis að þær ættu frekar heima í næstu fjárlögum, séu þær réttlætanlegar á annað borð. Hann nefnir sem dæmi tillögu um 18 millj. kr. framlag til iðnrn. vegna innleiðingar nýrra raforkulaga og breytts fyrirkomulags í raforkumálum. Frv. um þessar breytingar hefur ekki enn komið fyrir þingið. Forveri þess frv. var kynntur á þingi sl. vor, fáeinum klukkustundum áður en þinginu var slitið. Þá fékk hæstv. iðnrh. því framgengt að mæla fyrir frv., kl. hálfsex að morgni en með því skilyrði að enginn annar fengi að taka til máls. Síðan höfum við orðið vör við að mikill ágreiningur er um það frv. innan ríkisstjórnarinnar. Fyrrv. hæstv. menntmrh., Björn Bjarnason, hefur ásakað ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki leitað eftir því að Ísland yrði undanþegið reglugerðum Evrópusambandsins í raforkumálum. Þannig er greinilegur ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar um frv., enda bólar ekki á því. Engu að síður er tillaga um 18 millj. kr. framlag (JB: Á fjáraukalögum?) á fjáraukalögum fyrir þetta ár (LB: Ertu að uppgötva það núna?) í tengslum við frv. sem er ekki komið fram á yfirstandandi þingi.

Varðandi vinnubrögðin höfum við einnig tekið undir ábendingar og gagnrýni sem fram hefur komið hjá Ríkisendurskoðun í minnihlutaáliti hv. þm. Jóns Bjarnasonar á þá leið að við viljum árétta það sem fram kom í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga janúar til september 2001, sem á jafn vel við í ár og í fyrra.

,,Í þeirri skýrslu var gagnrýnd sú stefna að halda ríkisstofnunum í gíslingu með því að taka ekki á fjárhagsvanda þeirra, láta þær bera árum saman halla frá fyrri árum og halda þeim þannig í spennitreyju án þess þó að skipa þeim að loka eða leggja niður lögboðna þjónustu og verkefni sem þeim er gert að sinna við fullkomlega óviðunandi aðstæður.``

Mér láðist að geta þess, herra forseti, að ég vitna hér í minnihlutaálit hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Ég held áfram tilvitnun minni, með leyfi forseta:

,,Þetta á meðal annars við í menntakerfinu þar sem háttalag ríkisstjórnarinnar veldur illbætanlegu tjóni á öllu menntakerfi landsmanna.``

[12:15]

Tilvitnun minni lýkur en hér er hv. þm. Jón Bjarnason að taka undir með gagnrýni sem fram hefur komið frá Ríkisendurskoðun á vinnubrögð ríkisstjórnarinnar.

Einna alvarlegast er þó að nú skuli verið að loka bókhaldi ríkisins með því að færa til tekna óseldar eignir. Í fjárlögum fyrir árið 2002 var gert ráð fyrir sölu eigna upp á rúma 15,5 milljarða kr. En nú við 3. umr. fjáraukalaga er gert ráð fyrir að tekjur vegna sölu eigna verði 15,2 milljarðar kr. á árinu 2002.

Meginhluti þessara tekna er fyrir sölu á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. og í Búnaðarbankanum. Samkvæmt upplýsingum sem gefnar voru í fjárln. nema sölutekjur eigna á þessu ári aðeins 6 milljörðum kr.

Í minnihlutaáliti hv. þm. Jóns Bjarnasonar segir, með leyfi forseta:

,,Vinstri hreyfingin -- grænt framboð telur með mjög villandi og með öllu óviðunandi vinnubrögð af hálfu stjórnar meiri hlutans að tekjur af þessum eignasölum, ef þá af þeim verður, verði færðar til tekna á þessu ári. Einungis hafa verið undirritaðar viljayfirlýsingar um kaup á áðurnefndum hlutabréfum. Ekki liggur fyrir hvenær kaupsamningar verða endanlega frágengnir og undirritaðir. En ljóst er að greiðslur fyrir þá sölu sem nú er fyrirhuguð munu ekki koma inn í ríkissjóð fyrr en á næsta ári ef af sölu verður.`` --- Og hv. þm. heldur áfram, með leyfi forseta: ,,Ef sala eigna upp á rúma 15,3 milljarða kr. sem ráð er fyrir gert í endurskoðaðri tekjuáætlun er ekki tekin með er lítið eftir af rekstrarafgangi fjárlaga eða einungis 1,6 milljarðar kr.``

En rekstrarafgangur eins og hann stendur núna við þessa umræðu samkvæmt reiknikúnstum ríkisstjórnarinnar er 16,9 milljarðar. Þetta eru blekkingar. Þetta eru bókhaldsbrellur sem hv. þm. Jón Bjarnason, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í fjárln., hefur rækilega sýnt fram á. Þetta eru bókhaldsbrellur.

Herra forseti. Þetta var um vinnubrögðin, um handarbaka\-vinnubrögðin á þessum fjáraukalögum.

Aðeins að nokkrum efnisþáttum. Hv. þm. Jón Bjarnason sagði, eins og ég vék að áðan, að mörgum opinberum stofnunum, mörgum undirstöðustofnunum í velferðarkerfi okkar, heilbrigðisstofnunum, menntastofnunum er haldið í gíslingu vegna fjársveltis. Það hefur einnig komið fram í gögnum frá honum á hvern hátt sá vandi birtist, t.d. vandi framhaldsskólanna. Þar hefur komið fram að þegar tekið hafði verið tillit til afkomu ársins höfðu framhaldsskólarnir ráðstafað liðlega 334,9 millj. kr. umfram heimildir. Uppsafnaður fjárhagsvandi Menntaskólans í Kópavogi var í árslok 2001 162,7 millj. kr., Fjölbrautaskólans í Breiðholti 74,7 millj. kr. og Fjölbrautaskólans í Ármúla 69,2 millj. kr., Fjölbrautaskóla Vesturlands 60,3 millj. kr. og Verkmenntaskólans á Akureyri 52,5 millj. kr. Það sýnir óábyrga fjárlagagerð af hálfu stjórnarmeirihlutans að ekki skuli vera tekið á vanda framhaldsskólanna. Á þetta hefur hv. þm. Jón Bjarnason ítarlega bent.

Hann hefur einnig farið rækilega yfir í gögnum sínum og máli hver vandi heilbrigðisstofnana er og vikið þar sérstaklega að vanda heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, hve alvarlegur hann er. Ég ætla ekki að fara nánar út í tölur í því efni en ég ætla að benda á að komið er lítillega, örlítið, á þó mjög óviðunandi hátt til móts við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, þegar litið er á heilbrigðisstofnanir. Þar er um að ræða tillögu upp á 158 millj. kr. á þessu ári sem hefði þurft að vera sennilega helmingi hærri í þessum fjáraukalögum og er ég þá ekki að tala um fjárlög næsta árs. Hvað framhaldsskólana snertir er talað um 260 millj. kr. framlag fyrir þetta ár á fjáraukalögum. Þarna hefðu þurft að koma 300 milljónir til viðbótar. Vil ég í því sambandi minna á mjög alvarleg varnaðarorð sem hafa komið frá kennurum í framhaldsskólunum, en í ályktun sem þeir sendu frá sér 11. nóvember segir m.a., með leyfi forseta:

,,Fjárlagafrumvarpið sem nú liggur fyrir er áfall fyrir starfsemi framhaldsskólanna og ávísun á kreppu og stöðnun í skólastarfinu. Félag framhaldsskólakennara heitir á ráðherra í ríkisstjórn, fjárlaganefnd og alla þingmenn að snúast sameiginlega til varnar framhaldsskólanum og viðurkenna með því að hann skuli ekki vera hornreka í ríkisrekstrinum.``

Hér er vísað til fjárlaganna, til framtíðarinnar. En í þeim upplýsingum sem ég vék að áðan og er að finna í nál. hv. þm. Jóns Bjarnasonar er tekið á vanda sem er uppsafnaður og hefði þurft að mæta m.a. í fjáraukalögunum en er gert á óviðunandi hátt.

Er það vegna þess að peningar eru ekki til? Áðan kom fram í máli mínu að samkvæmt kokkabókum ríkisstjórnarinnar er rekstrarafgangur á þessu ári 16,9 milljarðar. Og jafnvel þegar við erum búin að draga frá brellurnar og hinar óheiðarlegu reiknikúnstir er eftir sem áður rekstrarafgangur upp á 1,6 milljarða kr. Hvers vegna er þessum fjármunum ekki ráðstafað í uppbyggilegu skyni? Getur verið að ekki séu til peningar eða er þetta spurning um forgangsröð?

Að sjálfsögðu er þetta spurning um forgangsröð því að í brtt. ríkisstjórnarinnar er ekki aðeins að finna þær brtt. varðandi framhaldsskóla og sjúkrahús, sem eru allt of litlar, heldur er einnig að finna framlag til annarra verkefna undir liðnum Ýmis verkefni. Hvaða verkefni skyldu það vera? Það eru útboðs- og einkavæðingarverkefni upp á 220 millj. kr. á fjáraukalögum.

Hvað er það sem ekki var fyrirséð og hefði af þeim sökum átt að vera í fjárlagafrv.? Þarna eru alltaf til nægir peningar, þarna er alltaf nóg til. Mér finnst það vera mjög alvarlegt að þegar óskað hefur verið eftir því í fjárln. --- og ég spyr, herra forseti: Hvar er formaður fjárln.?

(Forseti (GÁS): Hann er í húsinu.)

Ég mun ekki halda áfram máli mínu fyrr en hann er kominn hingað í þingsalinn.

Hv. þm., formaður fjárln., gengur nú í þingsalinn, en ég hef gagnrýnt að hér skuli ekki vera til staðar við umræðuna þeir ráðherrar sem hafa þurft að sæta mjög harðri gagnrýni, hæstv. forsrh., hæstv. iðn.- og viðskrh., m.a. frá hendi formanns þingflokks Framsfl., en óviðunandi finnst mér með öllu að formaður fjárln. skuli ekki vera viðstaddur alla umræðuna.

Ég ætla að beina spurningu til hv. formanns fjárln. í tilefni af tillögu um aukið framlag til einkavæðingarnefndar, hvernig staðið hafi á því að ekki hafi fengist rökstuðningur fyrir því í fjárln. hvernig þessum 220 milljónum yrði varið og þær sundurliðaðar rækilega til að sýna fram á hvað með þá peninga er gert. Hvernig rökstyður hv. formaður fjárln. þessa þögn? Hvers vegna er ekki orðið við þeim eðlilegu óskum?

Ég skil það hins vegar út frá mannlegu sjónarmiði að menn vilji helst fara með þessa hluti í felur, því að alltaf þegar slíkar umræður eru dregnar fram í dagsljósið sjá menn að þar er á ferðinni spilling og sukk, óráðsía, spilling og sukk.

Við fengum t.d. að vita hvernig einkavæðingarnefndin vinnur. Það er ekki nóg með að hún fái nefndarlaun fyrir störf sín, það er ekki nóg með það. Þeir leita einnig ráðgjafar úti í bæ, þessir miklu sérfræðingar sem settir voru í einkavæðingarnefnd vegna þess að þeir eru svo miklir sérfræðingar. Nei, þeir þurfa á enn meiri sérfræðiþekkingu að halda utan úr bæ. Og til hverra skyldu þeir leita? Til hverra skyldu sérfræðingarnir í einkavæðingarnefnd leita? Til hverra skyldi Hreinn Loftsson hafa leitað? Hann leitar náttúrlega til manns sem hann treystir allra manna best. Hvað skyldi hann heita? Hann heitir Hreinn Loftsson og hann er lögfræðingur úti í bæ. Þannig leitaði formaður einkavæðingarnefndar til sjálfs sín um ráðgjöf. Það gerði Jón Sveinsson líka. Hann var í einkavæðingarnefnd. Hann treysti engum manni betur en lögfræðingnum Jóni Sveinssyni og auðvitað réð hann hann til starfa. Og þar er komin skýringin á því að framlagið til allra þessara einstaklinga er tvískipt. Það var mislangt hve þeir gengu í því efni. Annars vegar nefndarþóknun og hins vegar sérfræðistörf.

Finnst mönnum þetta vera eðlilegt? Eru þetta eðlileg vinnubrögð? Og er síðan hægt að bjóða þinginu upp á það þegar óskað er eftir því að gerð sé rækilega grein fyrir því hvernig þessum fjármunum er varið, að því sé hafnað? Hvernig rökstyðja menn það? Fyrir hvað er þessi vinna? Er það aðallega í tengslum við bankana? Ekki eru það sérfræðingar í listaverkum sem voru ráðnir til starfa því að það gleymdist nú við söluna að gera eignaskrá um eignir bankanna og þar á meðal listaverkin sem hanga þar og eru ómetanlegur hluti af listaarfi okkar. Þar er ég ekki að gagnrýna hv. formann fjárln. því hann tók undir þá gagnrýni og hafði að ýmsu leyti forgöngu um hana.

Við hefðum átt að hugsa það dæmi fyrr og minni ég á að við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði vorum alla tíð andvíg því að þannig yrði farið með þessar eignir þjóðarinnar, bankana sem núna er verið að afhenda flokksgæðingum Sjálfstfl. og Framsfl. og held ég að Framsfl. sé verri í þessu efni, ég held það. Ég skil reyndar ekki frjálshyggjumennina og hægri mennina í Sjálfstfl. að hafa ekki gagnrýnt þessi vinnubrögð og heimtað að fyrst farið var að selja hlut í bönkunum á markaði að það yrði ekki gert raunverulega á markaði og hlutabréfin seld þar. Nei, nei, það þurfti að finna nýja formúlu til þess að veita flokksgæðingum Framsfl. aðgang að kjötkötlunum. Þess vegna var reglan búin til um kjölfestufjárfesta til að geta samið um skiptin. Við þekkjum hvernig þetta hefur gerst. VÍS tekið undan Landsbankanum, fært undir fyrrv. varaformann Framsfl. Síðan líða nokkrir dagar og það fyrirtæki er komið í hóp fyrirtækja sem lúta stjórn manna sem eru innarlega í Framsfl. og hæstv. viðskrh. hafði geð í sér til þess að skilgreina sem framsóknarfyrirtæki þannig að ekki leikur nokkur vafi á því hver liturinn er á þeim fyrirtækjum, þótt ég viti ekki lengur hver liturinn er á Framsfl. vegna þess að hann hefur hagað sér sem spillt hjálparhella við íhaldið og tekur núna þátt í að leyna þingið upplýsingum um hvernig þessum fjármunum er ráðstafað, neitar að koma með sundurliðaða skilgreiningu á því. Mér finnst það vera mjög alvarlegt og ég ætlast til þess að hv. formaður fjárln. geri þinginu grein fyrir hvernig á því stendur að þessu skuli vera hafnað. Ég vona að þessari umræðu ljúki ekki nema hann komi hér í pontu og geri rækilega grein fyrir þessu.

Það mætti hafa mörg orð og langt mál um pólitískt innihald þessa frv. og enn frekar um þau vinnubrögð sem hér eru uppi en eins og ég gat um í upphafi máls míns ætla ég ekki að verða til þess að lengja umræðuna. Hv. þm. Jón Bjarnason, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í fjárln., hefur gert mjög rækilega og mjög málefnalega grein fyrir afstöðu okkar, bæði því sem lýtur að vinnubrögðum og einstökum tillögum sem er að finna í fjáraukalagafrv. og ég vil í öllum dráttum gera hans orð að mínum og taka undir þau.