Fjáraukalög 2002

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 12:39:56 (2153)

2002-12-05 12:39:56# 128. lþ. 47.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[12:39]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt þetta sem mér finnst svo alvarlegt, að hv. þm., formanni fjárln. finnist þær litlu upplýsingar sem fram voru kreistar eftir mikinn eftirrekstur af hálfu fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í fjárln., bókanir og kröfur um að upplýsingar kæmu fram, nægja til að taka málefnalega afstöðu til þessara mála. Það finnst mér alvarlegt. Mér finnst það ills viti ef fjárln. er orðin afgreiðslustofnun, færibandaafgreiðslustofnun af þessu tagi. Hún á að sjálfsögðu að leggja sjálfstætt mat á þær kröfur og óskir sem koma frá framkvæmdarvaldinu. Það er grundvallarforsenda að hún hafi ítarlegar upplýsingar fyrir framan sig. Það var ekki að frumkvæði stjórnarmeirihlutans að kallað var eftir þessum upplýsingum. Stjórnarmeirihlutinn virtist reiðubúinn að afgreiða málið nánast umræðulaust.

Það var fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í fjárln. sem krafðist þess að fá þessar upplýsingar. Eftir mikinn eftirrekstur frá hans hendi komu þessar 10--15 línur, sem er ekki sundurliðun af því tagi sem hann var að óska eftir. Mér finnst það áhyggjuefni ef stjórnarmeirihlutinn er reiðubúinn að afgreiða kröfur ríkisstjórnarinnar um fjáraustur í einkavæðingarbatteríið nánast án þess að hafa upplýsingar fyrir hendi en krefur hins vegar fulltrúa sjúkrastofnana, heilbrigðisstofnana og skóla um ítarleg rök fyrir þeirri beiðni sem þær stofnanir setja fram. Mér finnst eðlilegt að þær komi með slík rök en það eiga líka allir að gera.