Fjáraukalög 2002

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 12:52:26 (2155)

2002-12-05 12:52:26# 128. lþ. 47.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[12:52]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram í þessari umræðu í morgun fær fjárln. margvíslegar upplýsingar frá bæði ráðuneytum og öðrum aðilum sem varða afgreiðslu nefndarinnar. Þessar upplýsingar berast nefndinni með skriflegum hætti ef óskað er sérstaklega eftir því en vegna spurninga hv. þingmanns vil ég minna á að fulltrúar ráðuneytanna koma til nefndarinnar og gera grein fyrir margvíslegum tillögum sínum og óskum og svara síðan þeim spurningum sem koma fram hjá nefndarmönnum.

Oft eru þessi samskipti beint við ráðuneytin, og ráðuneytin eru tilbúin sömuleiðis til þess að koma hvenær sem við óskum eftir. Beint samband er jafnframt milli nefndarinnar og starfsmanna ráðuneytanna. Enn fremur hefur fjmrn. sérstakt hlutverk í þessu efni. Það hefur annast upplýsingaöflun fyrir nefndina þegar nefndin hefur óskað eftir slíku.

Ég tel að á fundum nefndarinnar, sem hv. þm. hefur setið ásamt öðrum sem hér hafa tekið til máls um upplýsingaöflunina, hafi fulltrúar ráðuneytisins gefið mjög ítarleg svör og ég hef ekki orðið var við annað en að allir nefndarmenn hafi fengið þau svör sem beðið hefur verið um þó að ég hafi tekið undir þær ábendingar sem komið hafa fram hjá hv. þingmönnum að okkur þyki í nefndinni, og þá tala ég almenns eðlis, að nokkuð hafi skort á að ráðuneytin gæfu okkur á réttum tíma þau atriði sem við óskum eftir. Hef ég beitt mér þar fyrir hönd nefndarinnar, hvort sem ég er þar í stjórn eða stjórnarandstöðu.