Fjáraukalög 2002

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 12:58:48 (2158)

2002-12-05 12:58:48# 128. lþ. 47.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[12:58]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Það hefði auðvitað verið miklu auðveldara fyrir okkur í fjárln. að yfirfara þessar 220 millj., eða við bæta, ef við hefðum haft allar þær forsendur sem við óskuðum eftir til þess að fara yfir stöðu framhaldsskólanna.

Mér finnst eðlilegt svona í lokin, þar sem við erum væntanlega að ljúka þessari umræðu, að þakka hv. þingmanni fyrir jákvæðar undirtektir við ýmislegt af þeirri gagnrýni sem ég hef komið á framfæri, og ég vonast til að það verði til þess að fjárln. taki þetta til gaumgæfilegrar skoðunar. Það er nokkuð ljóst að það fjáraukalagafrv. sem við erum hér að ljúka umræðu um og síðan það fjárlagafrv. sem við tökum til meðhöndlunar þegar líður á daginn verða síðustu frv. af þeirri gerð sem fjárln. nú mun um fjalla. Ég held hins vegar að það sé afar nauðsynlegt að fjárln. ljúki ekki þessu kjörtímabili án þess að fara vel yfir þessi mál og jafnvel ljúka þeirri vinnu með ákveðnum tillögum sem sú fjárln. sem tekur við á haustdögum næsta árs kæmi til með að taka tillit til og vonandi vinna eftir. Það er alveg augljóst mál að nefndin sem nú situr hefur auðvitað ákveðna reynslu og hefur fylgst með ákveðinni þróun sem ég hélt fram hér áðan. Ég endurtek að því miður hefur þróunin verið aftur á bak en ekki áfram að öllu leyti og við þurfum auðvitað að taka mjög vel til hendinni ef við ætlum að gera breytingar þar á. Ég held að nefndin sem nú situr, sem hefur þessa reynslu, hljóti að geta orðið að liðsinni við þær breytingar sem óhjákvæmilegar eru ef við ætlum að standa almennilega að því að ljúka vinnu við fjáraukalög og fjárlög hvers árs.