Fjáraukalög 2002

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 13:00:45 (2159)

2002-12-05 13:00:45# 128. lþ. 47.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[13:00]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í lokin. Ég var heldur seinn á mér að biðja um andsvar við hv. þm. Einar Má Sigurðarson og verð þess vegna að kveðja mér hljóðs í ræðu sem verður mjög stutt.

Ég vek athygli þingheims á því að nú er að ljúka umræðu um fjáraukalög með mjög hefðbundnu sniði. Menn hafa réttilega sakað ríkisstjórnina um slæleg vinnubrögð, um að vinna þetta frv. á handarbakinu eins og sagt er, og menn láta í ljósi þá ósk að svona verði þetta ekki að ári, að ríkisstjórnin lofi því eða sá stjórnarmeirihluti sem þá verður ríkjandi að gera það aldrei aftur, eins og krakkarnir segja. Það er vissulega ástæða til að taka undir þá gagnrýni sem fram hefur verið sett og óskir um að bætt verði úr þessum vinnubrögðum.

Ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hljóðs var sú lýsing hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar á orðum mínum áðan, að ég hefði verið að fjalla um atburði í fjárln. sem aldrei hefðu átt sér stað þar eða væru ekki sannleikanum samkvæmir. Það eina sem ég sagði var að hv. þm. Jón Bjarnason, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, hefði haft forgöngu um að óska eftir nánari sundurliðun á framlagi vegna einkavæðingar eða í tengslum við hana, 220 millj. kr. Ég efast ekki um og hef fengið það staðfest hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að undir þá kröfu hans hafi aðrir tekið og stutt dyggilega. Ef ég fer á einhvern hátt með rangt mál óska ég auðvitað eftir að það verði skýrt út hvað ég fer rangt með. Ég vitnaði í framgöngu ákveðins þingmanns í fjárln. sem hafði óskað eftir þessum upplýsingum. Ég efast ekkert um að hv. þm. Einar Már Sigurðarson hafi staðið sig prýðilega í starfi sínu og efast ekkert um að hann hafi tekið undir þessar tillögur og undir lokin hafi hv. formaður nefndarinnr einnig gert það og reynt að ganga eftir þessum upplýsingum. Það sem ég gagnrýni hins vegar er að fjárln. skuli láta bjóða sér þessi vinnubrögð yfirleitt af hálfu framkvæmdarvaldsins. Við erum að tala þarna um verulegar upphæðir og það er eðlilegt að framkvæmdarvaldið geri mjög rækilega grein fyrir því hvernig fjármununum er ráðstafað. Það er eðlilegt að fjallað sé á almennan hátt um fjárbeiðnir í tengslum við fjárlög en hér erum við að tala um fjáraukalög, þ.e. ráðstöfun fjármuna sem þegar hefur átt sér stað. Og þegar óskað er eftir því að gerð sé grein fyrir því með hvaða hætti hafi verið að verki staðið á að sjálfsögðu að gera það á ítarlegan og málefnalegan hátt. Það hefur ekki verið gert.