Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 14:07:09 (2167)

2002-12-05 14:07:09# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[14:07]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt að til fjárln. kom fulltrúi Háskóla Íslands og gerði nefndinni grein fyrir þeirri stöðu sem háskólinn er í. Þar var komið inn á kennsluþátt háskólans og ekki síður rannsóknaþáttinn. Fulltrúar Háskóla Íslands lögðu þar ríka áherslu á það hlutverk sem skólinn hefur í íslensku mennta- og atvinnulífi.

Mér er fullkunnugt um að þarna þarf að vinna vel að og ég vænti þess að hægt sé að verða við óskum þeirra þegar fram í sækir þó ekki sé hægt að gera betur en gert er samkvæmt brtt.

Varðandi framhaldsskólana minni ég hv. þm. á að nú hafa, samkvæmt tillögum okkar, verið lagðar 220 millj. í framhaldsskólana í fjáraukalögum og 70 millj. í fjárlagatillögum okkar.

Þá minni ég á að 50 millj. kr. eru núna ætlaðar til Sjúkrahússins á Akureyri. Ég tel að þar sé verulega komið til móts við sjúkrahúsið enda þótt betur mætti gera. Ég vil láta það koma fram sem ég hef áður sagt við þessa umræðu að Sjúkrahúsið á Akureyri hefur verið til fyrirmyndar hvað rekstur og aðhald varðar og að halda sér innan fjárlaga.

Varðandi fjórðu og síðustu spurningu þingmannsins þá átta ég mig ekki á því hvað lá þar að baki.