Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 14:09:04 (2168)

2002-12-05 14:09:04# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[14:09]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Til að ítreka það sem síðast var nefnt og hvað liggur að baki því. Það eru fjölmargir aðilar sem hafa sótt til fjárln. og eru sárreiðir vegna þess að þeim finnst þeir ekki njóta jafnræðis. Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að nefna þá einstaklinga nafni. Við hv. formaður fjárln. vitum um hverja er að ræða.

Ég undirstrika það hér að tilefni til fjárlagagerðar, sem verða leyst og er ekki hægt að leysa öðruvísi héðan af nema með fjáraukalögum, liggja fyrir núna við þessa umræðu. Það liggja fyrir útgjaldatilefni sem varða Háskóla Íslands, framhaldsskólana og sjúkrahúsin á landsbyggðinni. Það eru til fjármunir til að leiðrétta stöðuna. Við erum ekki að fara að fjárreiðulögum og ekki að fylgja fjárlögum þegar svona er unnið. Ég verð að segja það við hv. formann fjárln. að ég skil ekki þetta vinnulag þegar tilefnin eru til staðar og möguleiki á að leiðrétta hallarekstur, að menn skuli ekki taka á því. Ég undirstrika þetta, virðulegur forseti, við þessa umræðu.

Ég sé að þeir eru í miklum og djúpum samræðum, hv. formaður fjárln. og hæstv. fjmrh., um þessi málefni og þeir geta auðvitað ekki leyst þau hér á augnabliki.