Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 14:10:55 (2169)

2002-12-05 14:10:55# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[14:10]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður er það ekki rétt hjá hv. þm., að til séu nægjanlegir fjármunir til að verða við hinum mörgu og merku tillögum og óskum sem komu fram á fundum fjárln. Ríkisstjórnin og meiri hluti fjárln. (Gripið fram í.) hefur sett sér það ákveðna markmið, sem við ætlum að standa við og munum standa við ef tillögur okkar ná fram, að afgreiða fjárlögin réttu megin við núllið. Eins og margsinnis hefur komið fram hér í þingsölum er það ekki meira en svo að það takist.

Ég hef bent á að það sé ábyrgt hjá ríkisstjórninni og fjárln. að auka nokkuð ríkisútgjöldin þegar atvinnuleysi hefur heldur aukist frá því sem búist var við þó enginn vá sé þar fyrir dyrum. Þetta tel ég að sé hin ábyrga afstaða, að bregðast við þeim breytingum sem eiga sér stað í þjóðfélaginu og efnahagslífinu, jafnhliða því að skila fjárlögum réttu megin. En það þýðir ekki það, þó svo ég viðurkenni að mörg séu málin og góð, að svigrúm sé til frekari fjárveitinga. Þingmaðurinn taldi að nú ætti að afgreiða inn á fjárlög ákveðin málefni og spáir að þau komi inn á fjáraukalög. Eftir að hafa skoðað þau mál, bæði hjá fjmrn. og hjá nefndinni, tel ég að þetta sé rétt afgreiðsla og taka verði afstöðu til þessarar nýju útgjalda á næsta ári, hvort sem það skilar sér síðan inn í fjáraukalög eða fjárlög fyrir 2004.