Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 14:19:22 (2174)

2002-12-05 14:19:22# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[14:19]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ræða hv. formanns fjárln. var fremur stutt og ég tel að það hvíli nokkur skylda á formanni fjárln. að mæla betur fyrir tillögum meiri hlutans, sérstaklega ákveðnum stefnumarkandi tillögum í frv. Ræða formanns fjárln. er líka lögskýringargagn varðandi túlkun á málum þannig að hún hefði þurft að vera nokkuð ítarlegri.

Ég fagna þó þeirri yfirlýsingu sem hv. formaður fjárln. gaf varðandi bæði húsnæðisvanda og rekstrarvanda Byrgisins. Þetta var rætt í fjárln. eins og hv. formaður fjárln. kom inn á en var ekki afgreitt. Málin eru enn þá til afgreiðslu hjá ríkisstjórn. Ég viðurkenni að við hefðum kannski heldur viljað að afgreiðslan hefði farið fram nú þegar innan fjárln. en ég treysti því að hæstv. ríkisstjórn muni fylgja málum eftir og leysa húsnæðis- og rekstrarvanda Byrgisins því þar er afar mikilvægt starf unnið, og ég veit að það nýtur víðtæks stuðnings.

Annað sem ég vildi minnast hér á við hv. formann fjárln. er hvort hann geti skýrt frekar framlög til atvinnuþróunarfélaga. Samkvæmt samþykktri byggðaáætlun ber að styrkja atvinnuþróunarfélögin og sömuleiðis líka að efla eignarhaldsfélögin. Hv. þingflokksformaður Framsfl. kom inn á þetta í morgun. Ég er líka með útskrift af andsvari hæstv. iðnrh. frá því fyrr í haust þar sem hún lýsir því yfir að hún telji að það sé samkomulag í ríkisstjórninni um 20 millj. kr. í viðbót til atvinnuþróunarfélaganna sem sér þó hvergi stað.