Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 14:50:56 (2185)

2002-12-05 14:50:56# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[14:50]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér hafa hv. þm. stjórnarandstöðunnar kvartað undan ræðum sem ég tel að komi fyrst og fremst að kjarna málsins en séu ekki endurtekning og margþulin tugga eins og mér fannst vera í málflutningi hv. þingmanns sem hér talaði áðan.

Þegar litið er yfir þau atriði sem hann gerði að umræðuefni má nefna lélega fjármálastjórn ríkisins, að fjárhagur stofnananna sé brostinn, atvinnuleysi hafi aukist um brot úr prósentu, þjóðhagsspáin hafi lítið breyst. Við þurfum óháða aðila í þjóðhagsspá, hærra band í menntakerfinu, og Þjóðminjasafnið, Sinfóníuhljómsveitin og RÚV eru í einhverjum vanda. Hafa menn heyrt þetta fyrr? Er verið að óska eftir því að formaður fjárln. eyði tíma hv. þingmanna í að lesa þetta upp eins og hv. þm. gerði hér háðan?

Ég tel að honum séu mjög mislagðar hendur. Hann eys hér útgjaldatillögum Samfylkingarinnar yfir okkur, hv. þingmenn, á sama tíma og það vantar algjörlega framtíðarsýn. Það kemur engin framtíðarsýn frá hv. þingmanni um tekjuöflun eða breytingar í þjóðfélaginu sem gætu staðið undir þessum skefjalausu tillögum um útgjöld. (Gripið fram í.)

Ég vil líka láta koma fram að Þjóðminjasafnið fær 15 millj. kr. núna á milli 2. og 3. umr. Vandi Sinfóníuhljómveitarinnar er fyrst og fremst vegna lífeyrissjóðsmála og vandi RÚV verður sérstaklega tekinn til bæna og athugunar hjá menntmrn. og þinginu þegar þar að kemur.