Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 14:52:48 (2186)

2002-12-05 14:52:48# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[14:52]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Það er hægt að fagna því að það hefur lifnað örlítið yfir hv. þingmanni. Það er örlítið meiri mannsbragur á hv. þingmanni en verið hefur fram eftir degi, og það ber að fagna því alveg sérstaklega.

Það er hins vegar afar sérkennilegt hvernig hann hlustar. Ég gerði það að umræðuefni áðan hvernig hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hlustar. Ég heyri að samvinna þeirra í fjárln. hefur greinilega m.a. falist í því að þeir hafa vanið sig á það að hlusta afar sérkennilega. Hv. þm. fullyrðir að ég hafi eingöngu dembt yfir menn útgjaldatillögum Samfylkingarinnar. Það er augljóst að hann hefur ekki tekið eftir því að útgjaldatillögunum fylgja tillögur um auknar tekjur, þ.e. þegar þessar tillögur eru samanlagðar er aukinn afgangur í ríkissjóði. Ég ætla því að vona að hv. þingmaður fylgist grannt með þegar hv. þm. Gísli S. Einarsson fer nákvæmlega yfir þessar tillögur á eftir og sitji þá við og skrifi hjá sér tölur, leggi síðan saman og dragi frá. Þá ætti hann að komast að þeirri einföldu niðurstöðu.

Varðandi hins vegar framtíðarsýnina er það út af fyrir sig alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að í ræðu minni fór ég ekki nákvæmlega yfir það hvað gera þyrfti. Það var hins vegar ósköp einföld ein setning sem sagði það sem hv. þm. þarf að læra. Það er augljóst mál að þessi verkefni bíða nýrrar ríkisstjórnar. Hjá því verður ekki komist. Núv. ríkisstjórn er að sigla inn í sinn síðasta vetur. Það verður skipt um ríkisstjórn í vor og þá, hv. þingmaður, skal ég lofa þér að ekki verður skortur á framtíðarsýn.