Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 14:57:56 (2189)

2002-12-05 14:57:56# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. 2. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[14:57]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frhnál. um frv. til fjárlaga fyrir árið 2003 hér við 3. umr. Í frv., með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á því við 2. umr. og brtt. meiri hlutans nú við 3. umr., er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs á næsta ári verði 271,6 milljarðar kr. Heildarútgjöld ríkissjóðs eru áætluð um 260 milljarðar kr. Tekjuafgangur ríkissjóðs er því áætlaður 11,5 milljarðar. Ef miðað er við fjárlög þessa árs hækkuðu rekstrargjöld ríkissjóðs um 5% frá því sem samþykkt var á fjárlögum 2002 og því sem nú liggur fyrir við samþykkt fjáraukalaga. Ef miðað er við að það sama mundi gerast á þessu ári má gera ráð fyrir að heildarútgjöld ríkissjóðs fari í tæpa 273 milljarða kr. á árinu 2003. Ljóst er því að ef gjöldin þróast eins og á síðasta ári þurfa að koma til auknar tekjur af hálfu ríkissjóðs ef hann á í raun að skila afgangi.

Ef tekjur af sölu ríkiseigna eru dregnar frá hverfur mesti glansinn af árangri ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Afkoma ríkissjóðs er þá í besta falli í járnum þau missiri sem hún hefur setið.

En víkjum aðeins að vinnu við fjárlagagerðina sjálfa. Ríkisstjórnin leggur fram frv. til fjárlaga í upphafi þings. Að því búnu fer það til fjárln. til frekari umfjöllunar. Sú hefð hefur skapast að við 2. umr. eru lagðar fram meginbreytingar þingsins á gjaldahlið frv. en við 3. umr. er lögð fram endurskoðuð tekjuáætlun fyrir næsta ár og jafnframt þær efnahagsforsendur sem ríkisfjármálin næsta ár byggjast á.

[15:00]

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð bendir á að eðlilegra væri að við 2. umr. væri fjallað um tekjuáætlunina, efnahagsforsendur og stefnu í ríkisfjármálum. Við þá umræðu væri tekjuhlið frumvarpsins ákveðin en við 3. umr. væru útgjöldin endanlega ákveðin. Það er góður siður á heimilum að telja fyrst í buddunni og ákveða síðan útgjöldin. Þannig ætti það einnig að vera hjá Alþingi gagnvart ríkisfjármálunum.

Virðulegi forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð bendir enn fremur á nauðsyn þess að Alþingi hafi sjálfstæða ráðgjafa í efnahagsmálum. Í dag verður Alþingi að reiða sig á útskýringar sérfræðinga framkvæmdarvaldsins því nú er það fjármálaráðuneytið sem gefur út endurskoðaða þjóðhagsspá sem fjárlagafrumvarpið byggist á. Nauðsynlegt er að Alþingi hafi eigin stofnun sem starfar með Alþingi í efnahagsmálum og fjármálastjórn ríkisins. Í þessu sambandi má nefna að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs fluttu tillögu til þingsályktunar á síðasta löggjafarþingi þess efnis að sett yrði á fót nefnd til að meta kosti þess að Þjóðhagsstofnun yrði færð undir Alþingi. Í greinargerð með þeirri tillögu kom fram að eitt meginhlutverk Þjóðhagsstofnunar væri að fylgjast með framvindu efnahagsmála, meta árangurinn af efnahagsstjórn ríkisstjórnar á hverjum tíma og líklegar afleiðingar ráðstafana í efnahagsmálum. Því gæti tæpast talist heppilegt að stofnunin heyrði beint undir forsætisráðuneytið eða annað ráðuneyti framkvæmdarvaldsins sem fer með yfirstjórn efnahagsmála. Frá því að þessi tillaga var lögð fram hefur Þjóðhagsstofnun verið lögð niður. Því hafa enn dofnað möguleikar Alþingis til að fá óvilhalla menn til að meta árangurinn af efnahagsstjórninni og horfur í efnahagsmálum. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs leggja þunga áherslu á að úr þessu verði bætt og að komið á fót sérstakri efnahagsstofu á vegum Alþingis sem hafi það hlutverk að veita alþingismönnum ráð við meðferð og mat á efnahagsmálum, efnahagsforsendum og veita ráðgjöf í þeim efnum.

Herra forseti. Ef litið er á einstök atriði í fjárlagafrv. liggur ljóst fyrir að hinn gífurlegi fjárhagsvandi framhaldsskólanna er hvergi nærri fullleystur þó að nokkuð hafi þar verið úr bætt. Það hefur komið fram í umræðunni að skólastjórnendur hafa gagnrýnt það reiknilíkan sem notað er til að ákvarða fjárveitingar til skólanna. Gagnrýnin hefur beinst að því að reiknilíkanið sé ekki nógu vel aðlagað að mismunandi starfsemi þeirra. Framhaldsskólar á landsbyggðinni hafa kvartað undan því að ekki sé tekið nægjanlegt tillit til aukins kostnaðar, t.d. vegna fjarlægðar skólanna frá höfuðborginni, þaðan sem vörur og þjónusta er keypt og fundir haldnir. Þá hafa verkmenntaskólar gagnrýnt að búnaður verknámsdeilda og tölvumála sé stórlega vanmetinn. Félag framhaldsskólakennara hefur einnig í ályktun gagnrýnt fjárlagafrumvarpið og fjárveitingar til framhaldsskólanna.

Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa í málflutningi sínum lagt áherslu á menntamálin og að auknum fjármunum verði varið til þess málaflokks. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð telur þau vinnubrögð sem meiri hlutinn hefur stundað varðandi menntamálin séu alls ekki til eftirbreytni og þar þurfi gjörbyltingu á. Það verður að taka á rekstrarvanda framhaldsskólanna og skapa þeim lífvænleg rekstrarskilyrði þannig að þeir geti sinnt skyldu sinni og vaxandi kröfum.

Sé litið til heilbrigðiskerfisins, sem einnig hefur mikið verið til umræðu hér og stór hluti fjárlaganna beinist að, þá er fjárhagsvandi þess mikill. Í lok ársins 2001 var rekstur 22 heilbrigðisstofnana umfram fjárheimildir og var samanlagður vandi þeirra um 1,6 milljarðar kr. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings kemur enn fremur fram að rekstrarhalli Landspítala -- háskólasjúkrahúss hafi verið 858 milljónir kr. en samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2002 og tillögum ríkisstjórnarinnar til fjárlaganefndar við 2. umr. nemur fjárhagsvandi hans um 2,3 milljörðum kr. Ljóst er, og það er góðra gjalda vert, að ríkisstjórnin er að einhverju leyti að taka á fjárhagsvanda Landsspítalans. Það hefur þó ekki komið nægilega skýrt fram hvað veldur því að sú stofnun fer stöðugt fram úr fjárlögum sínum. Nokkuð ljóst virðist þó vera að ástæðan sé sambland af skipulagsskekkjum í heilbrigðisþjónustunni á undanförnum árum og óraunhæfum fjárveitingum.

Þvert á opinbera stefnu í heilbrigðismálum hefur heilbrigðisþjónustan markvisst verið að þróast í tvöfalt kerfi, kerfi einkavæddrar sérfræðiþjónustu annars vegar og opinberrar heilsugæslu á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum hins vegar. Mikilvægt er að snúa af braut einkavæðingar í heilbrigðismálum sem núverandi ríkisstjórn hefur hleypt af stað og vaxið hefur hröðum skrefum á sl. átta árum. Af frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2003 og fjáraukalagafrumvarpi fyrir árið 2002 má sjá að alltaf er verið að laga stöðu sjúkrastofnana hér í Reykjavík. Það er vel og nauðsynlegt. En heilbrigðisstofnunum úti um land er ætlað að halda kostnaði innan fjárlagaramma síns svo sem eðlilegt er.

Aukning á fjárheimildum til heilbrigðismála kemur þó aðallega fram hjá sjúkrastofnununum hérna í Reykjavík en ekki á landsbyggðinni. Með þeirri stefnu er verið að skekkja uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Virðist sem stefna stjórnvalda sé að reyna að stefna öllum til Reykjavíkur sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð mótmælir þeirri stefnu og leggur áherslu á öfluga heilbrigðis- og sjúkraþjónustu um allt land svo að allir fái notið nauðsynlegrar þjónustu í heimabyggð.

Vandi menntakerfisins er kannski hve augljósastur þegar kemur að Háskóla Íslands. Öflugt menntakerfi með fjölbreyttu námsframboði er forsenda framfara og hagvaxtar. Jafnrétti til náms, óháð fjárhag og búsetu, skiptir miklu máli. Það er mikill áfellisdómur sem forsvarsmenn framhaldsskólanna hafa kveðið upp um framkvæmd menntastefnunnar sl. áratug og lýst hefur verið í ályktunum samtaka þeirra. Dapurlegt er að sama sinnuleysið hefur ríkt t.d. gagnvart Háskóla Íslands. Það er dagljóst að verið er að þvinga fram einkavæðingu á einstökum deildum Háskóla Íslands eða á skólanum öllum. Er leynt og ljóst verið að krefjast þess að skólinn sæki æ stærri hluta rekstrar síns í vasa nemenda. Í fylgiskjali með nefndarálitinu er einmitt grein eftir Pál Skúlason háskólarektor sem birtist í Morgunblaðinu 3. des. sl. og ber yfirskriftina ,,Vill Alþingi skólagjöld?``

Virðulegi forseti. Ég get svarað því strax og fyrir hönd okkar flokks, Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, að við viljum ekki skólagjöld. Við viljum öflugt skólastarf, öfluga skóla þar sem allir eiga jafnt aðgengi, óháð efnahag. Þannig á Háskóli Íslands að eflast. En það er ljóst að Háskóla Íslands vantar fjármagn ef hann á ekki að lenda í rekstrarhalla á næsta ári. Áætlanir menntamálaráðuneytisins um fjárþörf Háskóla Íslands eru ekki í samræmi við fjárþörf hans. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð telur að bæta þurfi úr þeim rekstrarvanda sem Háskóli Íslands nú glímir við.

Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs benda á að gera þurfi Háskóla Íslands kleift að vaxa og dafna sómasamlega. Jafna þarf fjárhagsstöðu ríkisháskóla og einkarekinna háskóla. Það er ekki sanngjarnt og veikir samkeppnisstöðu ríkisháskóla að einkaháskólar geti innheimt skólagjöld af nemendum sínum, umfram það sem ríkisháskólum er heimilt að gera, þótt þeir fái sömu fjárframlög frá ríkinu og ríkisháskólarnir. Þetta er meðal annars í andstöðu við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum þar sem einkaskólar þurfa að velja um hvort þeir taki skólagjöld eða þiggi ríkisframlög til jafns við ríkisskóla. Virðulegi forseti, Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur ávallt mótmælt innleiðingu skólagjalda enda er það í andstöðu við stefnu hennar í menntamálum.

Víkjum aðeins að fjáröflun ríkissjóðs. Yfirstandandi kjörtímabil þessarar ríkisstjórnar, sem nú er senn á enda, hefur einkennst af aukinni skattheimtu af tekjum þeirra sem eru með lágar tekjur eða miðlungstekjur. Hefur þetta einkum og sér í lagi gerst sökum þess að skattleysismörk hafa hvergi nærri fylgt launa- og verðlagsþróun. Þá hefur allt núverandi valdatímabil ríkisstjórna Sjálfstæðisflokksins, fyrst með Alþýðuflokknum og nú með Framsóknarflokknum, einkennst af stórhækkuðum notendagjöldum í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og í atvinnulífinu öllu án þess að það hafi leitt til lækkunar beinna skatta á almenningi.

Nýjasta dæmið er fjármögnun á samningi ríkisstjórnarinnar við samtök aldraðra. Þrátt fyrir góðæri undanfarinna ára verður að leggja á nýja skatta til að mæta þeim litlu leiðréttingum sem verið er að gera á kjörum aldraðra.

Vert er að vekja athygli á að stimpilgjöld hafa verið mjög óréttlátur skattur. Gefið hafði verið loforð um að hann yrði lækkaður verulega eða felldur út. Nú er það afturkallað og talið tæknilega illviðráðanlegt þannig að sá skattur stendur að fullu áfram.

Skattar á hátekjufólk hafa verið lækkaðir og sömuleiðis tekjuskattur fyrirtækja. Áfram er fjármagnseigendum ívilnað í sköttum. Einkavæðing almannaþjónustu og sala á þjónustustofnunum hins opinbera hefur verið hornsteinn hugmyndafræði þessarar ríkisstjórnar. Söluandvirði þessara eigna er svo tekið inn í almennan rekstur ríkissjóðs. Öllum er ljóst að fjáröflun á þeim grunni getur ekki drifið ríkissjóð áfram til lengdar. Það er því miður staðreynd að ekki er hægt að selja sömu eignina tvisvar og það mun þessi ríkisstjórn reyna.

Að lokum segir í nál. 2. minni hluta að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggi áherslu á að ríkisfjármálum sé beitt til að auka jöfnuð í samfélaginu. Mikilvægt er að létta af þeirri spennu sem hefur magnast á síðustu árum vegna aukins tekjumunar í þjóðfélaginu og kerfisbundinnar mismununar á lífskjörum fólks. Öllum þegnum þjóðfélagsins skulu tryggð mannsæmandi lífskjör. Það á að vera aðalsmerki hins samábyrga velferðarsamfélags að svo sé. Öll mismunun á lífskjörum leiðir til hættulegrar spennu og þenslu í þjóðfélaginu sem og til röskunar fjölskyldubanda, byggðar og atvinnulífs.

Gegn þessu ójafnvægi verður að berjast með öllum tiltækum ráðum. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs leggja til að tekjum ríkisins verði í auknum mæli varið til menntunar og rannsókna, framlög til umhverfismála verði aukin og að tekið verði upp ,,grænt bókhald`` þegar meta skal arðsemi í rekstri og framkvæmdum.

Mikil byggðaröskun, stöðugir fólksflutningar á höfuðborgarsvæðið og sá mikli viðskiptahalli sem við höfum búið við undanfarin ár sýndi ótvírætt að viðskipta- og þjónustugeirinn á suðvesturhorninu hafði vaxið langt umfram það sem aukning í þjóðarframleiðslu gaf tilefni til. Þessu verður að snúa við til að við náum eðlilegum hagvexti og jafnvægi í viðskiptum og greiðum niður skuldir þjóðarbúsins við útlönd.

Á síðustu árum hefur þróast hér hagkerfi, efnahags- og atvinnulíf sem hefur nærst á viðskiptahallanum og er orðið háð honum. Við munum reyna en það verður þrautin þyngri að snúa af þeirri braut. Krafa um hagræðingu sem tekur einungis tillit til tímabundinna arðsemiskrafna fjármagnseigenda og ofurtrú á hagkvæmni stærðarinnar hefur villt stjórnvöldum sýn og leitt atvinnulífið inn á villigötur sem þjóðin öll sýpur nú seyðið af.

Virðulegi forseti. Hér verður að breyta um stefnu. Það verður að stöðva einkavæðingu almannaþjónustunnar. Búa þarf atvinnulífinu þá umgjörð að fólk og fjármagn leiti aftur til þeirra atvinnugreina sem stuðla að varanlegri verðmætaaukningu í þjóðfélaginu og þar með raunhagvexti. Beina þarf athyglinni að litlum og meðalstórum fyrirtækjum þar sem hugvit og framtak sérhvers einstaklings fær notið sín og atvinnurekstri sem er í takt við íslenskar aðstæður, í takt við íslenskan veruleika og byggir á sjálfbærri nýtingu náttúrauðlindanna. Takist þetta, virðulegi forseti, þá mun byggjast upp blómlegt atvinnulíf á raunsönnum grunni um allt land.

Það er í þessum stóru málaflokkum sem Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð greinir á við stefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar um forgangsröðun, áherslur og pólitíska sýn í efnahags- og fjármálastjórn ríkisins.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir nál. 2. minni hluta fjárln. Með nál. þessu eru fylgiskjöl, m.a. grein Páls Skúlasonar, sem ég minntist á áðan, í Morgunblaðinu 3. des. árið 2002, sem bar yfirskriftina ,,Vill Alþingi skólagjöld?`` Háskólarektor bendir þar á að með óbreyttri stefnu í menntamálum, eins og þessi ríkisstjórn hefur rekið hana á undanförnum árum, er verið að þvinga Háskóla Íslands og menntakerfið allt inn í skólagjaldamenntakerfi þar sem nemendur verða krafnir um æ stærri hlut í rekstri skólanna. Þessari stefnu sem keyrð er áfram af hálfu ríkisvaldsins, af hálfu ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl., í beinni og óbeinni einkavæðingu skólakerfisins, er Vinstri hreyfingin -- grænt framboð andvíg. Hún vill að jöfnuður ríki til náms og að ríkisvaldið standi af myndarskap að menntastofnunum sínum. Í því liggur framtíðarvöxtur og velferð þessa þjóðfélags.

Þá er í fylgiskjali með nál. umfjöllun um stöðu Sementsverksmiðjunnar á Akranesi. Mikil umræða hefur verið um stöðu hennar á síðustu vikum og hafa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs beitt sér fyrir tillöguflutningi hér á Alþingi til að efla og styrkja stöðu og verkefni Sementsverksmiðjunnar á Akranesi og sömuleiðis að styðja við bak hennar í erfiðri samkeppnisstöðu við erlent stórfyrirtæki sem flytur inn sement í samkeppni á meintu undirverði, að því er látið hefur verið í veðri vaka.

[15:15]

Það er afar mikilvægt að standa vörð um Sementsverksmiðjuna. Ég vil vekja athygli á því að í umfjöllun um fjárlögin í fjárln. var komin inn sú tillaga að selja skyldi Sementsverksmiðjuna alla, að hún skyldi öll sett á sölulista. En við lokaafgreiðslu fjárlaga úr nefndinni féllst meiri hlutinn sem betur fer á og beitti sér fyrir því að söluheimildin yrði tekin út þannig að eftir stæði einungis heimild til að selja 25% hlut. Áður hafði sá sem hér stendur mótmælt því í nefndinni að verksmiðjan yrði öll sett á sölulista.

Í nál. 2. minni hluta er einnig fylgiskjal, grein sem ber yfirskriftina ,,Á meðan ráðherrann sefur``. Þetta er grein eftir okkur hv. þm. Árna Steinar Jóhannsson og birtist í Morgunblaðinu í dag þar sem verið er að að lýsa því hvernig stjórnvöld virðast sofa, að því er virðist svefninum langa, í stað þess að taka á með Sementsverksmiðjunni og styrkja hana. Það er vonandi að sú stefnubreyting sem varð við það að fella burtu söluheimildina á verksmiðjunni sé tákn um að nú ætli stjórnvöld að taka varanlega og myndarlega á með Sementsverksmiðjunni á Akranesi.

Virðulegi forseti. Það eru örfá atriði enn sem ég hefði viljað minnast á, m.a. að í þessu frv. til fjárlaga eru hvorki meira né minna en 80 jarðir eða jarðarhlutar settir á sölulista. Ég hef aldrei séð það fyrr. Þó að margar jarðir hafi komið inn á sölulista á undanförnum árum hefur fjöldinn aldrei verið sem nú. Áfram búum við við það að landbrn. eða ríkisvaldið hefur hvergi kynnt stefnu í meðferð á ríkisjörðum eða ríkiseignum. Þarna virðist bara af handahófi tekin ákvörðun um að setja bunka af ríkisjörðum á sölulista.

Það er mat okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að eðlilegt væri að selja bújarðir til ábúenda sem nýta þær og búa á þeim. Sömuleiðis má huga að því hvernig einstökum jörðum er ráðstafað til að styrkja byggð og búsetu á viðkomandi svæðum. En gjörsamlega skipulagslaus sala á jörðum, að því er manni virðist, finnst mér ekki sæmandi vinnubrögð. Landbrn. hefur ekki lagt fram neina stefnu eða skilgreiningu á því hvernig og hvers vegna þessar jarðir eru valdar og settar í sölu. Það hefur færst allt of mikið í vöxt að jarðir séu seldar hæstbjóðanda. Það geta verið eigendur sem koma og eiga þar engra annarra hagsmuna að gæta en að komast yfir þessar jarðeignir, gjarnan hlunnindaeignir. Eignarhald á þeim getur hins vegar rýrt búskap og búskaparmöguleika á jörðum sem nærliggjandi eru. Ég geri mjög alvarlegar athugasemdir við stefnu ríkisstjórnarinnar eins og hún birtist í þessu, að bunki jarða, nærri 80 jarðir og jarðarhlutar séu settir til sölu án þess að nokkur greinargerð fylgi um stefnu eða skipulag varðandi jarðeignir ríkisins eða hvernig mætti verja þessum jörðum til styrktar búsetu í nágrenni þeirra ef nauðsynlegt er talið að selja þær.

Þá vil ég og gera hér að umtalsefni, herra forseti, spurningar sem ekki hefur verið svarað. Hæstv. iðnrh. hefur ekki verið hér til staðar og vil ég þá beina spurningu minni til hæstv. fjmrh. ef hann gæti látið svo lítið að hlýða á þær, hann ber jú ábyrgð fyrir hönd framkvæmdarvaldsins á framlagningu fjárlagafrv. og því sem þar er.

Það kom fram í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, formanns þingflokks framsóknarmanna, í morgun að hann teldi að ekki væri unnið samkvæmt samþykktri byggðaáætlun frá því í vor. Hann vék að því að í nál. meiri hluta iðnn. við afgreiðslu á þáltill. um stefnu í byggðamálum hafi verið kveðið á um að það væri forgangsverkefni að styrkja varanlega rekstur atvinnuþróunarfélaganna ásamt eignarhaldsfélögum og atvinnuþróunarsjóðum. Þetta kemur fram í 7. lið í þessu nál. um stefnu í byggðamálum frá meiri hluta iðnn. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Nefndin telur jafnframt mikilvægt að styrkja varanlega rekstur atvinnuþróunarfélaganna ásamt eignarhaldsfélögum og atvinnuþróunarsjóðum.``

Nú liggur fyrir að samkvæmt þessu fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því að þessi eignarhaldsfélög séu lögð niður og fjármagni sem til þeirra hafi verið ætlað sé varið beint í byggðaáætlunina sjálfa, þ.e. til ákveðins sjóðs sem ætlunin er að setja upp á Akureyri.

Í máli hv. formanns þingflokks framsóknarmanna kom fram að þessi ákvörðun væri ekki aðeins í andstöðu við nál. á bak við samþykkt stefnunnar í byggðamálum í vor heldur hefði þessi ákvörðun, að fella niður eignarhaldsfélögin, heldur ekki verið borin undir þingflokk Framsfl. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Í hvers umboði er þessi breyting sett fram, að leggja niður eignarhaldsfélögin, taka af þeim það fjármagn sem þeim hefur verið ætlað og meiri hluti iðnn. sagði eina mikilvægustu forsendu samþykktar á stefnu í byggðamálum á sl. vori?

Ég tel persónulega að það sé röng ákvörðun að leggja niður eignarhaldsfélögin. Þau höfðu mikið hlutverk, hafa komið að góðum notum og styrkt og eflt einstök fyrirtæki. Vissulega þurfti að gera nokkrar breytingar á formi úthlutunarinnar þannig að hún kæmi enn betur að notum. Þessi ákvörðun er hins vegar ekki tekin á þeim grunni heldur virðist þetta einhliða aðgerð, alla vega ekki með samþykki þingflokks framsóknarmanna eins og þingflokksformaður þeirra nefndi. Ég krefst þess að hæstv. fjmrh. geri grein fyrir því í hvers umboði þessi breyting, að leggja niður eignarhaldsfélögin, er komin inn í fjárlagafrv.

Sömuleiðis vil ég spyrja hæstv. fjmrh. um nokkuð sem eðlilegt væri að hæstv. iðnrh. svaraði en getur alveg eins líka heyrt undir hæstv. fjmrh. Það varðar framlög til atvinnuþróunarfélaganna. Það kom skýrt fram í erindum til fjárln. að atvinnuþróunarfélögin telja að þau lifi við fjárskort og hafi ekki fengið framlög miðað við eðlilega þróun, kröfur og væntingar. Þetta ber líka að skoða í ljósi þess að þetta er ein af forsendum samþykktar á stefnu í byggðamálum, að atvinnuþróunarfélögin verði styrkt.

Ég vísa til andsvars hæstv. iðnrh. hér á Alþingi við umræðu um byggðamál varðandi þetta efni. Þetta sagði hún 5. nóv. sl., í umræðu um till. til þál. um ójafnvægi í byggðamálum. Þá sagði hæstv. iðnrh. Valgerður Sverrisdóttir, með leyfi forseta:

,,Í sambandi við atvinnuþróunarfélögin þá hafa þau fengið fjármagn í gegnum Byggðastofnun. Það er rétt hjá hv. þm. að þau framlög hafa ekki hækkað í samræmi við verðlagshækkanir þó að það sé kannski ekki rétt að þau hafi lækkað, en engu að síður er þetta svona. Að hluta til er þetta vegna þess að í fjmrn. hefur ekki verið tekið tillit til þess, ekki verið nægilega góður skilningur á því að þarna hafi þurft að færa upphæðir í samræmi við verðlag. Ég tel að það hafi náðst ákveðið samkomulag milli ráðuneytanna um að tekið verði á þessu að þetta verði leiðrétt. Ég tel að þarna sé um 20 millj. að ræða sem í raun þyrftu að bætast við til að þetta verði viðunandi.``

Virðulegi forseti. Þetta eru orð hæstv. iðnrh. hér úr ræðustól. Þessar 20 milljónir hafa hvergi komið inn í fjárlögin. Ekki bólar á þessu samkomulagi. Þessi vilji, skilningur eða skilningsleysi fjmrn. sem hæstv. iðnrh. ber fyrir sig virðist hafa ráðið því að þessar upphæðir koma ekki inn.

Því miður er hæstv. iðnrh. ekki hér til svara. Ég krefst þess að hæstv. fjmrh. svari því hvort þetta sé skilningsleysi í fjmrn. eða hvort þetta samkomulag sem iðnrh. var að vitna til hafi bara verið óskhyggja hæstv. iðnrh. Ég vona að hæstv. fjmrh. sé a.m.k. ekki andvígur því að standa við ályktanir Alþingis í byggðamálum, hvað varðar fjármagn til atvinnuþróunarfélaganna og vilja iðnrh. til að efla atvinnuþróunarfélögin. Ég vona að hann sé ekki svo andvígur því að styrkja og efla starfsemi atvinnuþróunarfélaga úti um land að ekki hafi orðið af þessari fjárveitingu.

Virðulegi forseti. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs berum fram nokkrar brtt. við lokaafgreiðslu frv., bæði hvað varðar einstaka gjaldaliði og tekjur. Fyrir þeim verður mælt síðar í umræðunni.