Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 15:28:38 (2190)

2002-12-05 15:28:38# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[15:28]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að margoft hafi komið fram hér í þessum sal og sé raunverulega á allra manna vitorði sem fylgst hafa með þessum málum að gert var ráð fyrir að hin svokölluðu eignarhaldsfélög á landsbyggðinni yrðu tímabundið fyrirbæri, a.m.k. að því er varðar þátttöku ríkisins. Þeirri þátttöku átti að ljúka á árinu 2002. En vegna þess að þá lá ekki fyrir hvert framhald yrði á sambærilegri starfsemi og vegna þess að þá lá ekki fyrir ný byggðaáætlun var það mín ákvörðun, við afgreiðslu fjárlaga og undirbúning fjárlagafrv. í fyrra, að hafa óbreytta fjárveitingu inni til þessa verkefnis. Úr því varð þó að áður væri búið að ákveða að það skyldi niður falla.

Hver var ástæðan fyrir slíkri ákvörðun? Hún var auðvitað sú að þá hefðum við peninga til að grípa til, til að geta flutt á milli yfir í það sem tæki við. Það er nákvæmlega það sem nú er að gerast í fjáraukalagafrv. Fjárveitingin upp á 200 milljónir í eignarhaldsfélögin flyst yfir í byggðaáætlun. Þetta hefur alla tíð legið skýrt fyrir, í það minnsta af minni hálfu og þarf þess vegna engum manni að koma á óvart.

Ég sé hins vegar ekki ástæðu til að hafa nein orð um síðari fyrirspurn hv. þm. vegna þess að hún byggist á útúrsnúningum.