Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 16:01:48 (2195)

2002-12-05 16:01:48# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[16:01]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Alveg er mér óskiljanlegt hvernig stóð á því að hv. þm., síðasti ræðumaður, vildi kalla á mig hingað til að ég mætti hlusta á þessa merku ræðu hans. Hann las upp úr bréfi frá formannafundi Farmannasambandsins að mér skildist og alveg er mér það óskiljanlegt hvers vegna ég átti að hlusta á þetta tal nema svo sé komið fyrr hv. þm. að hann sé farinn að ruglast á mér og einhverjum allt öðrum manni.

Sú var tíðin 1983 og 1984 þegar kvótakerfið var samþykkt, þá sat í ríkisstjórn maður að nafni Sverrir Hermannsson, hv. alþm. Ég var lengi í flokki með honum og á öllum landsfundum, þar til hann varð fyrir því óláni að fara úr flokknum, stóð ég fyrir mótmælum gegn þeirri skipan fiskveiðistjórnar sem í gildi var. Aldrei, herra forseti, meðan við vorum flokksbræður var nokkur Sverrir þar, aldrei var hann þar. Ég stóð fyrir því á öllum landsfundum í Landssambandi ísl. útvegsmanna að vera á móti þeirri skipan í fiskveiðistjórn meðan ég átti þar sæti. Enginn Sverrir kom þar til að styðja mig, aldrei nokkurn tíma og var hann þó útgerðarmaður á þeim tíma. Ég held að hann hljóti að fara mannavillt, hann sé alveg búinn að gleyma því og höfðum við þó mikil og löng kynni áður. Því harma ég þetta en ég bið hann að rifja það upp að frá fyrstu stundu á öllum vettvangi til dagsins í dag hef ég notað hverja stund bæði í ræðu og riti til að efast um og benda á að við værum að fara aftur á bak en ekki áfram varðandi fiskveiðistjórnina.