Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 16:05:14 (2197)

2002-12-05 16:05:14# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[16:05]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hv. þm. Sverrir Hermannsson er búinn að rifja upp hver ég er. Það er gott. Ég skildi það þannig þegar þessi ályktun var lesin að ég væri maðurinn sem þyrfti sérstaklega að hlýða á hana og ekki var annað á hv. þm. að skilja en að ég þyrfti að heyra það því að ég væri ábyrgðarmaðurinn á því hvernig komið væri. Þannig talaði hann. Það er þá ágætt að hann er búinn að draga í land með það og rifja það upp að hann var ráðherra þegar þessi ólög voru sett.

En ég hélt hér líka ræðu fyrir nokkrum dögum og hv. þm. gerði það að umtalsefni lengi að ég hefði rætt um Hafrannsóknastofnun. Það gerði ég vegna þess að ég vildi benda mönnum á að við hefðum farið aftur á bak en ekki áfram allan tímann. Við hefðum alltaf í 30 ár látið leiða okkur áfram af sama hópnum, þeim hópi sem hefur einkaleyfi á að rannsaka hafið kringum Ísland og náttúruna þar, þeim hópi sem hefur einkaleyfi að vinna úr þeim gögnum, þeim hópi sem einn telur sig geta dæmt um þetta, þeim hópi sem hefur staðið fyrir því að allir þeir sem mótmælt hafa, allir þeir sem hafa efasemdir um það hafa verið annaðhvort kallaðir óábyrgir, dónar, fífl eða kverúlantar. Við höfum verið að fara þá leið ógæfunnar. En þar sem ég er næstur á mælendaskrá skal ég fara yfir þetta enn þá betur, þá verður tími minn nægur og ég vona að hv. þm. sitji og hlusti af sömu gaumgæfni og ég hef hlustað á hann tala.