Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 16:07:04 (2198)

2002-12-05 16:07:04# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., SvH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[16:07]

Sverrir Hermannsson (andsvar):

Herra forseti. Mér dettur ekki í hug að bera blak af Hafrannsóknastofnuninni. Ég hef verið stórlega óánægður og gagnrýninn á mörg verk hennar. En að ég geti samfylkt vini mínum hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni í aðför hans að þeirri stofnun er fráleitt, enda er það gersamlega út í hött hvernig hann hefur veist að þeirri stofnun.

Ég spyr hv. þm. --- hann kemur þá að því í ræðu sinni af því að hann er búinn með andsvörin --- ef þetta hefur gengið svona til í 30 ár og við erum að færast úr eldinum í öskuna með þessum ósköpum undir ráðstjórn Hafrannsóknastofnunar og honum verður ekkert ágengt nema bara með vængjabusli á landsfundum Sjálfstfl., því skilur hann ekki við þetta apparat og kemur með mér í sóknina?