Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 16:37:15 (2206)

2002-12-05 16:37:15# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[16:37]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kom líka að því að það væri áhyggjuefni hversu lítill hagvöxturinn væri hjá okkur. Það skyldi þó ekki vera að það væri hægt að rekja einhvern hluta af því til ríkisstjórnarinnar sem hv. þm. styður? Hvað gerði þessi ríkisstjórn hans á þenslutímum þegar öll rök mæltu með því að dregið yrði úr ríkisútgjöldum? Jú, ríkisstjórnin hélt áfram að þenja út útgjöldin og þau uxu stjórnlaust ár eftir ár eftir ár. Ég tók fyrir tímabil fyrr í dag sem hv. þm. var að rengja. Málið er að ég get farið yfir þessar tölur með honum og sýnt honum fram á að ríkisútgjöldin uxu margfalt á við öll þau viðmið sem við höfum, og ekki nóg með það, hv. þm., á sama tíma jukust einnig skuldir hins opinbera. Ríkisstjórnin ber fulla ábyrgð á því að hagvöxturinn er kominn niður í það sem hann er og það sem verra er, ríkisstjórnin ber líka fulla ábyrgð á því að því miður er vaxandi atvinnuleysi í landinu. Það er óhjákvæmileg afleiðing af ríkisstjórnarstefnunni.