Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 16:40:52 (2209)

2002-12-05 16:40:52# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[16:40]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Staðreyndirnar liggja fyrir. Sjálfstfl. hefur í gegnum tíðina á öllum tímum haft forustu um að byggja upp velferðarkerfið á Íslandi. Það þarf ekkert að fara í grafgötur með sagnfræðina.

Hins vegar hefur verið gerð heilmikil breyting á því að við höfum samþykkt lög sem tryggja að öryrkjar og gamalmenni verða ekki fyrir tekjuskerðingu ef um snýst þannig að kjör þjóðarinnar versni. Það hefur verið gert núna og þess vegna getum við komið í veg fyrir að það sama gerist og gerðist á árunum 1988--1993 þegar kaupmáttur öryrkja og ellilífeyrisþega minnkaði stöðugt. Svo geta menn sem muna ekki neitt í sagnfræðinni rifjað upp hver var félmrh. þennan tíma og hver á að skammast sín. Og hver kemur hér og segir að ég tali án þess að blikna? Auðvitað blikna ég ekki neitt þegar ég fer yfir sagnfræðina, sýni fram á þetta, enda sýna allar hagtölur að það hefur verið vöxtur í kaupmætti allra þegna þjóðfélagsins. Svo geta menn komið og sagt að Hagstofan sé að ljúga, að Þjóðhagsstofnun sé að ljúga. Hverjir eru að ljúga? Þetta stendur þarna og er rétt.